Skip to main content
17. apríl 2020

Nýsköpunarsjóður námsmanna opnar fyrir nýjar umsóknir

""

Í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu hefur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna ákveðið að opna fyrir nýjar umsóknir sem gerir fleiri háskólanemum kleift að vinna við rannsóknir í sumar. Umsóknarfrestur verður til 8. maí nk.

Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Frá stofnun 1992 hefur sjóðurinn unnið sér nafn og gott orð fyrir vinnu mörg hundruð námsmanna og verkefna sem þeir hafa leyst af hendi fyrir tilstyrk sjóðsins.

Sjóðurinn heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og hafa stjórnvöld, sem hluti af aðgerðum til að örva atvinnulífið vegna áhrifa COVID-19-faraldursins, aukið fjármagn til sjóðsins um 100 milljónir króna á þessu ári, sem er ríflega tvöföldun á úthlutunarfé sjóðsins.

Niðurstöður úthlutunar styrkja til þeirra umsókna er bárust fyrir áður kynntan umsóknarfrest 5. febrúar munu liggja fyrir 17. apríl, umsækjendur fá tilkynningu í vefpósti og úthlutun verður einnig aðgengileg á heimasíðu sjóðsins.

Þeir sem sóttu um fyrir 5. febrúar og eru að bíða eftir niðurstöðu stjórnar eru beðnir um að bíða þar til úthlutun er birt.

Umsækjendur sem ekki fá framgang eru hvattir til að endurskoða umsókn sína og senda nýja og endurbætta umsókn fyrir 4. maí næstkomandi. Stefnt verður að úthlutun vegna nýrra umsókna uppúr miðjum maí.

Nánari upplýsingar um sjóðinn eru á heimasíðu hans

nemendur að störfum