Skip to main content
4. janúar 2021

Nýsköpunarhraðall fyrir konur hófst í HÍ í dag 

Nýsköpunarhraðall fyrir konur hófst í HÍ í dag  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrsta vinnulota nýsköpunarhraðals fyrir konur sem haldinn er undir merkjum Academy for Women Enterpreneurs (AWE) fór fram í dag. Háskóli Íslands stendur að verkefninu í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi og var um fjarfund að ræða. 

Nýsköpunarhraðallinn er haldinn til að styðja við konur sem vilja þróa viðskiptahugmyndir sínar eða styrkja rekstrargrundvöll núverandi fyrirtækja og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans.

AWE-verkefnið er í boði á alþjóðavísu á vegum bandarískra stjórnvalda en það samanstendur af tvennu. Annars vegar netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og hins vegar vinnulotunum sem Háskóli Íslands heldur utan um í samstarfi við öflugan og reyndan hóp kvenna úr atvinnulífi og nýsköpunargeiranum á Íslandi.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hóf hraðalinn formlega í dag og bauð þær 25 konur velkomnar sem valdar voru til þátttöku úr fjölda umsókna. Jeffrey Ross Gunther, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, flutti einnig ávarp. Bakhjarlar eða mentorar verkefnisins eru þær Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og frumkvöðullinn Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, vöru- og markaðsstjóri Florealis en þær tóku einnig til máls auk þess sem sú síðarnefnda stýrði dagskránni. 

Hraðallinn í dag var einnig fyrsta vinnulotan í röð margra þar sem persónustyrkleiki, núvitundarfærni, sjálfsefling og efling sköpunargleði var í háskerpu annars vegar en hins vegar var sjónum beint að styrkingu sprotafyrirtækja á Íslandi samhliða því að skoða fjármögnunarmöguleika þeirra. 

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, og Bryndís Jóna Jónsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands, voru aðalfyrirlesarar. 

Fleiri fræðslu- og vinnustofur verða haldnar næstu vikurnar og eru þær allar sérsniðnar að íslenskum aðstæðum. Þar verður m.a. fjallað um markaðsmál og samfélagsmiðla, viðskiptaáætlanir, hagnýt mál í tengslum við stofnun fyrirtækja, hugverka- og einkaleyfismál, tengslanet og fleira. 

Konunar hafa þegar hafið þátttöku í áðurnefndu Dreambuilder-vefnámskeiði og mótað hefur verið öflugt námssamfélag í þeirra þágu þar sem þær njóta faglegs stuðnings auk þess að hafa gott aðgengi að hagnýtum upplýsingum á meðan á hraðlinum stendur. 

Þátttakendur á Zoom
Þátttakendur á Zoom