Skip to main content
20. janúar 2020

Nýsköpun er leiðin til að dreifa hagsæld

""

„Nýsköpun getur verið sjálfsprottin, sprottin úr forvitni, úr því að skilja heiminn, gera betur, gera öðruvísi. Nýsköpun getur líka verið sprottin úr áskorunum. Við stöndum frammi fyrir vandamáli, við þurfum að leysa það. Þegar við sjáum fyrir að eitthvað gengur ekki upp, eins og í tilfelli heimsmarkmiðanna, þá þurfum við að breyta og finna nýjar leiðir. Það er í eðli sínu ekki sjálfsprottið heldur þurfum við að tína til það sem við vitum, við þurfum að flétta saman ólíka hluti til þess að leysa ákveðna áskorun.“

Þetta segir Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir námskeið í nýsköpun og viðskiptaþróun við háskólann en hann hefur haft nýsköpunar- og frumkvöðlafræði í fókus í rannsóknum og kennslu. Rögnvaldur mun tala á morgunverðarfundi helguðum nýsköpun og uppbyggingu í Háskóla Íslands á þriðjudaginn kemur ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra nýsköpunar, og Berglindi Rán Ólafsdóttur, framkvæmdastýru Orku náttúrunnar.  

Viðburðurinn er í röðinni Háskólinn og heimsmarkmiðin sem er helgaður öllum þeim áskorunum og verkefnum sem skilgreind eru í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Viðburðurinn þriðjudaginn 21. janúar hefst klukkan 8.45 og verður hann í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Hann mun standa til klukkan 10 og verður boðið upp á léttan morgunverð. 

Beint streymi verður af morgunverðarfundinum:

Knýjandi þörf að breyta heiminum með nýsköpun

Miðað við þau sautján heimsmarkmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint er augljós og knýjandi þörf á að breyta heiminum. Markmiðin lýsa stærstu verkefnum og helstu áskorunum sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir. Níunda markmiðið, Nýsköpun og uppbygging, hvetur þjóðir heims til að breyta innviðum og leggja áherslu á nýsköpun. 

„Þetta heimsmarkmið er áhugavert vegna þess að það er í raun og veru ekki markmið í sjálfu sér heldur er það markmið að öðrum heimsmarkmiðum, eins og að eyða fátækt og takast á við loftslagsvá. Við þurfum að breyta innviðum sökum þess að t.d. aðgangur að vatni, orku og upplýsingum eru leiðir til þess að dreifa hagsæld. Að dreifa hagsæld er eiginlega stærsta áskorunin í heimsmarkmiðunum og sú áskorun verður ekki leyst án nýsköpunar," segir Rögnvaldur. 

Orkugeirinn kallar á stöðuga nýsköpun

Berglind Rán Ólafsdóttir er framkvæmdastýra Orku náttúrunnar sem hefur haft nýsköpun í hávegum í sínu starfi. Er nærtækast að minnast á alþjóðlega vísindaverkefnið CarbFix í því sambandi sem Orkuveitan hefur unnið með Háskóla Íslands og erlendum aðilum. Ein mikilvægasta áskorun samtímans er að ráðast gegn loftslagsvánni og að draga varanlega úr styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti. Það hafa þessir samstarfsaðilar gert með því að binda koltvíoxið í grjót í berglögum. 

„Nýsköpun er mjög mikilvæg leið fyrir okkur til að þróa áfram samfélagið. Ef nýsköpun heppnast vel verða til hlutir eða leiðir sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið,“ segir Berglind Rán sem er með  MS-gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá IESE í Barcelona. 

Berglind Ran

„Þessi jákvæðu samfélagslegu áhrif geta verið ýmiss konar, t.d. minni kostnaður, aukin gæði eða meira öryggi og aukin lífsgæði. Nýsköpun er t.d. lykill að því að ná tökum á stórum samfélagslegum vandamálum eins og loftslagsvánni.“ 

CarbFix er einmitt skýrt dæmi um hvernig nýsköpun er hagnýtt til að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum orkuvinnslu. Verkefnið snýst um að dæla koltvíoxíði sem losnar við orkuvinnslu eins og á Hellisheiði niður í jörðina og breyta í steindir. Að verkefninu hafa komið, auk Háskóla Íslands, Orkuveita Reykjavíkur, Columbia-háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð Frakklands. 

Fjöldi vísindamanna hefur tekið þátt verkefninu auk íslenskra og erlendra doktorsnema og hefur það vakið heimsathygli. Tilraunir rannsóknahópsins með bindingu koltvíoxíðs með niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun hafa gefið góða raun og binst koltvíoxíðið berginu á um tveimur árum en áður var talið að það tæki upp í þúsund ár. Væntingar eru um að aðferðin geti í framtíðinni nýst í baráttunni við hnattræna hlýnun en koltvíoxíð er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar. 

„Ef við náum að setja nógu þunga áherslu á nýsköpun sem leið til þess að finna lausnir við loftslagsvánni og gera það vel munum við ná tökum á vandanum bæði fyrr og betur,“ segir Berglind Rán sem mun tala um mikilvægi nýsköpunar á fundinum á þriðjudag. 

Þau sem hafa leitt CarbFix verkefnið eru Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, og Edda Sif Aradóttir Pind, sem hefur starfað sem teymisstjóri framtíðarsýnar og nýsköpunar á þróunarsviði Orkuveitu Reykjavíkur. Nýlega var stofnað opinbert hlutafélag um kolefnisbindingaraðferðina CarbFix og stýrir Edda Sif nýja félaginu en hún er með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands sem var í samstarfi við Lawrence Berkeley rannsóknarstofnunina í Kaliforníu. 

„Ég held að það sé erfitt að leggja næga áherslu á hversu mikilvæg nýsköpun er. Í mínum huga er hún forsenda framfara, forsenda þess að við getum staðið undir því sem við viljum geta staðið undir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar,. „Ég lít svo á að án nýsköpunar getum við ekki náð heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Án nýsköpunar getum við ekki náð heimsmarkmiðum

Við upphaf viðburðarins á þriðjudag mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpa fundargesti. 

„Ég held að það sé erfitt að leggja næga áherslu á hversu mikilvæg nýsköpun er. Í mínum huga er hún forsenda framfara, forsenda þess að við getum staðið undir því sem við viljum geta staðið undir,“ segir Þórdís Kolbrún. „Ég lít svo á að án nýsköpunar getum við ekki náð heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Af þessu að dæma er ljóst að nýsköpun þarf að vera í háskerpu um heim allan því öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna stefna að því að innleiða nýju markmiðin sautján fyrir árið 2030. Það er því gríðarlega mikilvægt að sérfræðiþekking og rannsóknir séu nýttar til að leita lausna á þeim viðamiklu verkefnum sem heimsmarkmiðin lýsa og einfaldi samfélögum að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgja.  

Háskóli Íslands kappkostar að þekkingarsköpun og rannsóknir við skólann hafi víðtæk áhrif og takist á við allar þær flóknu áskoranir sem skilgreindar eru í heimsmarkmiðunum. Þess vegna stendur Háskólinn m.a. fyrir þessari viðburðaröð. 

Rögnvaldur hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands

Rannsóknir Rögnvaldar og samstarfsmanna hans í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands hafa oft skilað hagnýtum lausnum. Hugbúnaður sem aðstoðar stjórnendur sjúkrahúsa við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða hlaut t.d. fyrstu verðlaun í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í fyrra. Að verkefninu standa ásamt Rögnvaldi þau Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Háskóla Íslands, Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss,  Ásgeir Örn Sigurpálsson, Andri Páll Alfreðsson, Gunnar Kolbeinsson og Helgi Hilmarsson. Þeir síðastnefndu eru eða voru allir nemar við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskólans. 

„Verkefnið er hagnýtt þar sem markmiðið er að hanna gagnvirkt og sjónrænt upplýsingakerfi sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra á Landspítala Háskólasjúkrahúsi við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum.“

Nýsköpun í heilbrigðiskerfinu í formi bættra aðferða er ákaflega mikilvæg því hún getur snardregið úr kosnaði á sama tíma og hún eykur öryggi sjúklinga.  Rögnvaldur segir verkefnið býsna flókið viðfangsefni enda hafi ekki ennþá fundist góð lausn á þessari mikilvægu röðun aðgerða, hvorki á Landspítalanum né meðal annarra þjóða sem við berum okkur saman við. 

Rögnvaldur segir að fjárfesting í skurðstofurými sé nálægt því að vera tíföld á við fjárfestingu í legurými af sömu stærð. „Það er því eftir miklu að sækjast með því að bæta flæði og nýtingu aðfanga við skurðaðgerðir, hvort heldur sem er með betri nýtingu á þeim búnaði sem fyrir er eða með endurbótum og nýsköpun,“ segir Rögnvaldur.

Heimsmarkmið níu –  Nýsköpun og uppbygging

Níunda heimsmarkmiðið snýst um að byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun. Í þessu markmiði er sérstök áhersla á vísindarannsóknir sem eru gjarnan undirstaða nýsköpunar. Hvatt er til að rannsóknir verði efldar og tæknigeta atvinnugreina í öllum löndum endurbætt, þar á meðal í þróunarlöndum. Eigi síðar en árið 2030 verði ýtt undir nýsköpun og fjölgað störfum við rannsóknir og þróun fyrir hverja milljón íbúa auk þess sem útgjöld til rannsókna og þróunar hins opinbera og einkageirans verði aukin.  

Nánar um markmiðið er hér.

Rögnvaldur Sæmundsson