Skip to main content
5. september 2018

Nýr Shanghai-listi undirstrikar alhliða styrk HÍ

Nýr Shanghai-listi undirstrikar alhliða styrk HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 7. sæti yfir fremstu háskóla heims á sviði fjarkönnunar og í hópi þeirra hundrað bestu á sviði jarðvísinda samkvæmt hinum virta lista Shanghai Global Ranking of Academic Subjects. Niðurstöður fyrir árið 2018 voru nýlega birtar.

Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á Shanghai-listann í fyrra, en hann ber formlega heitið Academic Ranking of World Universities (ARWU). Listinn hefur verið birtur árlega frá 2003 og byggist á ítarlegu og óháðu mati samtakanna ShanghaiRanking Consultancy á yfir 1.500 háskólum um allan heim. Við matið er horft til nokkurra meginþátta, þar á meðal birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum skólans,  frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hljóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina.

ShanghaiRanking Consultancy birtir einnig árlega lista yfir fremstu háskóla heims á yfir 50 ólíkum fræðasviðum. Samkvæmt listanum í ár er Háskóli Íslands sá sjöundi besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hún felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þá er Háskólinn í 76.-100. sæti á sviði jarðvísinda og í sæti 101.-150. á sviði lífvísinda, landfræði og hjúkrunarfræði, í sæti 151-200 í ferðamálafræði, 201.-300. sæti í lýðheilsuvísinum og klínískri læknisfræði og sætum 301-400 yfir bestu háskóla heims í líffræði mannsins og stjórnmálafræði.

Shanghai-listinn er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistum yfir bestu skóla heims, en hinn er Times Higher Education World University Rankings. Háskóli Íslands hefur verið á þeim síðarnefnda allt frá aldarafmæli skólans árið 2011. Skólinn raðaðist þar í sæti 201-250 í fyrra og í 17. sæti á meðal háskóla á Norðurlöndum.

Lista ShanghaiRanking Consultancy sem nær til fræðigreina, Global Ranking of Academic Subjects, og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu ShanghaiRanking Consultancy.

Aðalbygging Háskóla Íslands