Skip to main content
23. mars 2018

Nýr enskur vefur Háskóla Íslands opnaður

""

Nýr og endurbættur enskur vefur Háskóla Íslands, english.hi.is, var opnaður í dag, föstudaginn 23. mars. Vefurinn hefur verið þróaður í samræmi við niðurstöður úr viðamikilli þarfagreiningu sem unnin var innan skólans. Efnisvinna og þýðingar hafa farið fram undanfarna mánuði og er leitast við að enski vefurinn endurspegli þann íslenska eins og kostur er.

Eftir opnun munu íslenski og enski vefurinn því hafa sama útlit og svipaða byggingu. Vefurinn er knúinn með vefumsjónarkerfinu Drupal eins og fyrri vefir skólans og var forritun og þróun viðmótsins í höndum Reiknistofnunar Háskóla Íslands. Hugsmiðjan stýrði hins vegar grunnhönnun nýja vefsins.

Vefurinn nýi er hannaður þannig að hann stillir sig sjálfvirkt af fyrir þau tæki sem birta hann og hentar vefurinn því jafnvel til skoðunar á borðtölvum, spjaldtölvum og í snjallsímum. Þetta er afar mikilvægt þar sem sífellt stærri hópur notenda styðst eingöngu við snjallsíma við að leita að upplýsingum, ekki síst um námsleiðir við skólann.

Þótt vefurinn hafi verið opnaður í dag verður hann þróaður áfram og verður í mótun næstu vikur og mánuði. Ábendingar frá notendum um það sem betur má fara eru því afar vel þegnar. Einfalt er að senda inn skilaboð frá hverri einustu síðu vefsins um viðbætur og breytingar auk þess sem hægt er að senda ábendingar á efni@hi.is.

 

Forsíða nýs ensks vefs Háskóla Íslands