Skip to main content
31. ágúst 2020

Nýnemadagar með óvenjulegu sniði í ár - Metfjöldi nemenda í skólanum

Nýnemadagar í Háskóla Íslands verða með nýstárlegu sniði í ljósi samkomutakmarkana og munu nær eingöngu fara fram á netinu. Boðið er upp á fjölbreytta fræðslu um háskólalífið með myndböndum og auk þess sem samfélagsmiðlar skólans verða nýttir til hins ítrasta til að taka vel á móti nýnemum. Metfjöldi nemenda er skráður í Háskóla Íslands þetta haustið.

Nærri 4.200 nemendur hefja nú grunnnnám í Háskóla Íslands og hátt í 3.000 framhaldsnám en alls verða nemendur hátt í 15 þúsund og hafa aldrei verið fleiri í upphafi skólaárs. Deildir og fræðasvið Háskóla Íslands hafa á undanförnum vikum boðið nýnemum á kynningarfundi, ýmist í litlum hópum eða gegnum netkynningar.

Nýnemadagar á vegum Háskóla Íslands og Stúdentaráðs marka alla jafna upphaf skólastarfsins en þar hafa ýmsar einingar innan skólans kynnt bæði þjónustu og fjölbreytt félagslíf. Dagskráin í ár átti að fara fram dagana 31. ágúst til 4. september en vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra samkomutakmarkana sem eru í gildi var ákveðið að færa dagskrá og fræðslu á netið. 

Í vikunni verður því m.a. boðið upp á rafræna gönguferð um háskólasvæðið fyrir nýnema á Instagram-síðu Háskólans en þar munu einnig þjónustueiningar og tengdir aðilar kynna starf sitt, þar á meðal Stúdentaráð, Háskólakórinn, Háskóladansinn, náms- og starfsráðgjöf, upplýsingatæknisvið skólans, nemendaskrá, skrifstofa alþjóðasamskipta, Landsbókasafnið og aðstandendur umhverfis- og sjálfbærnimála í skólanum. 

Þá hefur verið stofnuð sérstök Facebook-síða fyrir nýnema þar sem þeir geta kynnst hver öðrum og spurt um hvaðeina sem snýr að háskólalífinu.

Skólinn hefur enn fremur útbúið stutt myndbönd sem nálgast má á YouTube-rás skólans og er ætlað að auðvelda nýnemum að átta sig á háskólasamfélaginu en fleiri slík eru í bígerð.

Nýnemar geta enn fremur fengið svör um allt sem snertir fyrstu skrefin í háskólasamfélaginu á nýnemavefsíðu skólans. Þeir eiga jafnframt möguleika á að vinna vegleg verðlaun með þátttöku í spurningaleik sem fram fer á innri vef skólans, Uglunni

Háskóli Íslands býður alla nemendur hjartanlega velkomna til starfa!
 

Nýnemar á háskólasvæðinu