Skip to main content
16. desember 2020

Nýjar sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar

Nýjar sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrjár nýjar bækur í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar hafa komið út í haust á vegum Miðstöðvar einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar. Þetta eru bækurnar Sjálf í sviðsljósi eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur, Hvílíkt torf – tóm steypa! eftir Hjörleif Stefánsson og Frá degi til dags eftir Davíð Ólafsson. Ritstjórar ritraðarinnar eru Davíð Ólafsson, lektor í almennum bókmenntum, Már Jónsson, prófessor í sagnfræði og Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði. 

Sjálf í sviðsljósinu eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur fjallar um ævi og ímynd Ingibjargar Steinsdóttur (1903-1965), leikkonu og leikstjóra. Hún hrærðist í skáldskap og leiklist og lifði á skjön við ríkjandi viðhorf. Utan sviðs gegndi hún mörgum hlutverkum; bóndi, pólitískur aktívisti, ráðskona, spákona, eiginkona, móðir og amma.

Hvílíkt torf – tóm steypa eftir Hjörleif Stefánsson fjallar um þá byltingu í húsagerð sem varð þegar steinsteypa tók við af torfinu. Árið 1900 var efnt til mikillar rannsóknar sem átti að leiða til niðurstöðu um hvernig byggja ætti til framtíðar. Upplýsingum var safnað en þær voru aldrei nýttar. Hér eru frumheimildir birtar ásamt umfjöllun höfundar.

Í bókinni Frá degi til dags. Dagbækur, almanök og veðurdagbækur 1720-1920 eftir Davíð Ólafsson er rakin saga dagbókaritunar á Íslandi 1720-1920. Fjallað er um rætur dagbókaritunar í tímatalsskráningum, annálaskrifum og ritun veðurbóka um leið og rakin er þróun dagbókaskrifa á tímabilinu. 

Markmið ritraðarinnar Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar er að koma á framfæri áhugaverðum sjálfsbókmenntum (e. egodocuments) sem ekki hafa komið fyrir sjónir almennings eða fræðimanna. Hugmyndin er að vinna bækurnar þannig að þar sé að finna fræðilega kynningu á efninu sem tekið er fyrir hverju sinni sem og sýnishorn úr tilteknum handritum einstaklinga frá fyrri öldum. Heimildirnar sem eru birtar eiga það sameiginlegt að sýna lífshætti og -kjör alþýðumanna með einum eða öðrum hætti. Sýnisbækurnar hafa verið þróaðar með þá hugmyndafræði í huga að gefa lesendum kost á að komast í kynni við ótrúlega ríkulegan handritaarf frá síðari öldum sem varðveittur er í söfnum víða um land og í öðru lagi að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar. Ritstjórarnir voru þeirrar skoðunar að dagbækur, bréf og sjálfsævisögur væru líklegar heimildir til að vinna hug og hjörtu lesenda. Í þriðja lagi hefur það verið markmið ritstjóra að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra og margir höfundar ritraðarinnar eru núverandi og fyrrverandi nemendur við Háskóla Íslands. Í fjórða og síðasta lagi vildu ritstjórarnir freista þess að gefa vísindamönnum í hug- og félagsvísindum kost á að kynnast innihald einkaskjala sem hafa aðallega verið birt í ritröðinni. Ritstjórarnir segja að þessar heimildir, sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu, geti opnað nýja sýn á liðna tíð. 

Hægt er að kynna sér efni ritraðarinnar á heimasíðu hennar: www.sia.hi.is   

Kápur bókanna