Ný vefsíða Heimsins hnoss | Háskóli Íslands Skip to main content

Ný vefsíða Heimsins hnoss

14. maí 2018

Opnuð hefur verið ný vefsíða, hh.hi.is, á vegum öndvegisverkefnisins Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Verkefnið er undir stjórn Sigurðar Gylfa Magnússonar, prófessors í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, og fékk nýverið þriggja ára styrk frá Rannsóknarmiðstöð Íslands (RANNÍS). Þrettán íslenskir fræðimenn koma að rannsókninni auk fimm erlendra samstarfsmanna.

Rannsóknarverkefnið samanstendur af framlagi fræðimanna á sviði sagnfræði, efnismenningarfræða (fornleifafræði og mannfræði) sem og safnafræða. Þungi rannsóknarinnar verður tvíþættur: Í fyrsta lagi verður áhersla lögð á fyrirbærið safn (“the archive”); hvernig við varðveitum hugmyndina um liðna tíð, hvernig fólk og umhverfi þess er skráð og hvernig gerð er grein fyrir því í sögulegum heimildum. Í öðru lagi verður hugað að því hvernig söfn hafa verið nýtt í vísindum á fjölbreyttum sviðum akademískra rannsókna. Þar verður áherslan fyrst og fremst á efnismenningu; hvaða hluti átti fólk samkvæmt ólíkum „söfnum“ og hvernig voru þeir nýttir? Það þarf að ræða hvernig hlutirnir voru búnir til, hvernig fólk eignaðist þá, hvernig þeir voru notaðir og hvað fólki (eigendunum og öðrum) fannst um þá – um hugmynda- og hugarfarslegt gildi þeirra – og hvort þeir öðluðust í hverdagslífinu sérstaka merkingu. Ólíkum „söfnum“ verður teflt saman til þess að fá tækifæri til að skoða hugmyndir manna um fortíðina út frá nýju sjónarhorni og gagnrýna um leið hvernig fræðaheimurinn hefur unnið sín verk. Hugmyndin að baki þessari nálgun er að þekking á hlutveruleika hversdagslífs sé undirstaða aukins skilnings á því hvernig fólk „byggði“ líf sitt og skapaði sér ímynd (identity) og hvernig efnismenning og hlutir daglegs lífs stuðluðu að þeirri ímyndar og samfélagssköpun.

Nánari upplýsingar á hh.hi.is.

Netspjall