Skip to main content
5. september 2022

Ný sýnisbók prósaljóða og örsagna

Ný sýnisbók prósaljóða og örsagna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Með flugur í höfðinu: Sýnisbók prósaljóða og örsagna 1922-2012. Í bókinni er að finna íslensk prósaljóð og örsögur eftir tugi skálda sem hafa fengist við þetta bókmenntaform, allt frá útgáfu Flugna eftir Jón Thoroddsen árið 1922. Það eru þau Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Óskar Árni Óskarsson skáld sem tóku bókina saman auk þess sem Kristín ritar inngang þar sem hún fer ítarlega í saumana á fræðilegum álitamálum sem varða þessi bókmenntaform og rekur sögu þeirra hér á landi.  

Kristín Guðrún hefur talsvert fengist við örsögur og smásögur, ekki síst eftir höfunda frá Rómönsku Ameríku. Hún hefur ritstýrt fjölda bóka, setið í ritstjórn bókaraðarinnar Smásögur heimsins og þýtt og valið sögur í bækur, t.d. Við kvikuna: Örsögur frá Rómönsku Ameríku og Heimar mætast - smásögur frá MexíkóÓskar Árni Óskarsson hefur skrifað fjölda bóka með örsögum, prósaljóðum og smáprósum auk þess sem hann hefur þýtt smáprósa, m.a. eftir Ewu Lipska og Russell Edson. 

Í kynningu segir að textar bókarinnar Með flugur í höfðinu séu afar fjölbreyttir, sumt sé fyndið og spaugilegt, annað ljóðrænt og angurvært, sumt hvort tveggja, en textarnir eigi það sameiginlegt að liggja á mörkum ljóðs og sögu. Nálgast má nánari upplýsingar um bókina á vef Forlagsins.

Óskar Árni Óskarsson skáld og Kristín Guðrún Jónsdóttir prófessor.