Skip to main content
4. júní 2021

Ný stjórn Félags háskólakvenna tekur við

Ný stjórn Félags háskólakvenna tekur við - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný stjórn Félags háskólakvenna var kjörin á aðalfundi sem fram fór í Grósku í vikunni. Í stjórninni sitja Ásta Dís Óladóttir, formaður, Áshildur Bragadóttir, varaformaður, Guðmunda Smáradóttir, ritari, Vilborg Einarsdóttir, gjaldkeri, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, meðstjórnandi. Varamenn eru Ruth Elfarsdóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.

Félag háskólakvenna var stofnað árið 1928 af frú Önnu Bjarnadóttur, Jóhönnu Dagmar Magnúsdóttur, Katrínu Skúladóttur Thoroddsen, Kristínu Ólafsdóttur og Thyru Ingibjörgu Jensdóttur Loftsson að tilstuðlan Bjargar C. Þorláksson Blöndal.

Félagið er aðili að Alþjóðasambandi háskólakvenna (Graduated Women International, GWI). Félag háskólakvenna stendur meðal annars fyrir vali á Háskólakonu ársins og veitir rannsóknarstyrki auk þess að stuðla að umræðu og fræðslu. Vísindakonur innnan Háskóla Íslands eru meðal þeirra sem félagið hefur verðlaunað og styrkt. Í félaginu geta verið háskólamenntaðir einstaklingar sem útskrifast hafa úr íslenskum eða erlendum háskólum. 

„Það er mikill heiður fyrir mig að taka við formennsku í Félagi háskólakvenna,“ segir Ásta Dís sem er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en hún á skemmtileg tengsl við stofnanda félagsins, frú Önnu Bjarnadóttur. „Anna var gift séra Einari Guðnasyni í Reykholti í Borgarfirði, þar sem frú Anna, sem var þjóðkunnur enskukennari, kenndi í áratugi við héraðsskólann ásamt eiginmanni sínum sem sinnti þar kennslu samhliða prestsstörfum. Séra Einar skírði okkur systkinin öll, mig hér í Reykjavík nokkru eftir að hann lét af embættisstörfum í Reykholti. Athöfnin fór fram á heimili foreldra minna í Fossvoginum þann 1. júní 1973 og meðal veislugesta var frú Anna Bjarnadóttir sem að sjálfsögðu signdi yfir barnið,“ segir Ásta Dís.

Á myndinni má sjá nýja stjórn Félags háskólakvenna. Frá vinstri: Margrét Kristín Sigurðardóttir,  Vilborg Einarsdóttir, Ásta Dís Óladóttir, formaður, Áshildur Bragadóttir, Ruth Elfarsdóttir, Guðmunda Smáradóttir og Katrín Kristjana Hjartardóttir.
Mynd af frú Önnu Bjarnadóttur