Skip to main content
14. júní 2021

Ný stefna setur gæði, samfélagsáhrif og alþjóðastarf í öndvegi

Ný stefna setur gæði, samfélagsáhrif og alþjóðastarf í öndvegi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aukið alþjóðlegt og þverfræðilegt samstarf í rannsóknum og kennslu eru meðal megináherslna í nýrri stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2021-2026 en þar er sjónum beint að sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpun í þágu samfélagsins ásamt hvetjandi vinnuumhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk skólans. Stefnan var kynnt á ársfundi HÍ í morgun í Hátíðasal Aðalbyggingar. Við sama tækifæri var jarðvísindafólki Háskólans veitt árleg ársfundarverðlaun fyrir frumkvæði og forystu í störfum sínum.

Ný stefna HÍ ber yfirskriftina „Betri háskóli – betra samfélag“ og undirstrikar hún það mikilvæga hlutverk sem Háskólinn hefur í þágu framþróunar samfélaga og þekkingarsköpunar í heiminum. 

„Brýnar áskoranir samtímans og framtíðar kalla á lausnir sem byggjast á framsækni, þekkingu og þverfræðilegri nálgun og samstarfi. Þróun háskóla á næstu árum mun skipta sköpum fyrir viðureign samfélaga við þau flóknu viðfangsefni sem heimurinn stendur frammi fyrir. Því hefur aldrei verið brýnna að háskólar hafi skýra sýn á þróun eigin starfs. Háskólar eru vettvangur frjálsrar þekkingarleitar, skapandi hugsunar, nýsköpunar og menntunar nýrra kynslóða. Þeir þurfa að ryðja brautina með nýrri þekkingu og hafa kjark til að breytast í ljósi nýrra viðfangsefna.“

Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í morgun þegar hann kynnti nýju stefnu og vísaði til mikilvægi háskólastarfs í viðureigninni við helstu áskoranir samtímans. 

Í máli Háskólarektors kom fram að stefnan nýja grundvallaðist á víðtæku samráði þar sem starfsfólk, nemendur og samstarfsaðilar skólans í atvinnu- og þjóðlífi hefðu lagt sitt af mörkum á undanförnum mánuðum og misserum. 

Háskóli Íslands í hnotskurn 2020 - myndband sýnt á ársfundi

Ný stefna á 110 ára afmæli HÍ

Háskóli Íslands fagnar 110 ára afmæli þann 17. júní en frá því að hann var stofnaður hafa um 55 þúsund nemendur brautskráðst frá skólanum og látið að sér kveða á öllum sviðum samfélags og atvinnulífs. Háskólinn hefur enn fremur með markvissri stefnu skapað sér traust og virðingu á alþjóðlegum vettvangi sem alhliða og öflugur rannsóknarháskóli. Það endurspeglast m.a. í því að meðal 16 þúsund nemenda skólans eru stúdentar frá tæplega eitt hundrað þjóðlöndum og þá fjölgar erlendu starfsfólki á ári hverju.

Fjölmenni var í Hátíðasal í morgun þegar ný stefna var kynnt. Í máli Háskólarektors kom fram að stefnan nýja grundvallaðist á víðtæku samráði þar sem starfsfólk, nemendur og samstarfsaðilar skólans í atvinnu- og þjóðlífi hefðu lagt sitt af mörkum á undanförnum mánuðum og misserum. MYND/Gunnar Sverrisson

Fjórar meginstoðir eða áherslur

Stefnan nýja, sem kallast HÍ26, grundvallast á fjórum meginstoðum eða áherslum: að háskólinn sé opinn og alþjóðlegur, að sjálfbærni og fjölbreytileiki sé í fyrirrúmi, að afl skólans og styrkur byggist á grunni gæða í kennslu og rannsóknum og að háskólasamfélagið sé góður vinnustaður fyrir starfsfólk og stúdenta. 

Þrjú leiðarljós stefnunnar, gæði, traust og snerpa, eiga jafnframt að stuðla að því að skólinn laði að sér fólk með fjölbreyttan bakgrunn, styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni skólans í kennslu og rannsóknum og gefa honum færi á að taka frumkvæði til að mæta breytingum og áskorunum innan skólans, í samfélaginu og í alþjóðlegu samhengi.

Í stefnunni eru kynnt umfangsmikil umbótaverkefni sem unnin verða innan skólans til að ná markmiðum sem þar eru skilgreind. Þau snerta m.a. þróun kennsluhátta og alþjóðastarfs í kennslu, enn frekari uppbyggingu rannsóknainnviða, innleiðingu fleiri stafrænna lausna á öllum sviðum starfseminnar og stuðning við sjálfbærni í öllu starfi skólans. Þetta mun skipta sköpum fyrir hæfni bæði háskólasamfélagsins og íslensks samfélags í heild til að takast á við síbreytilegan veruleika og treysta alþjóðlega stöðu skólans.

Árið 2026 er því stefnt að því að:

  • Háskóli Íslands verði í nánu alþjóðlegu samstarfi, farvegur samfélagslegrar nýsköpunar og búi nemendur undir að takast á við verkefni margbreytilegs samfélags og áskoranir framtíðar
  • heildstæð sjálfbærnihugsun muni ríkja í starfi HÍ, sem búi yfir fjölbreyttu samfélagi nemenda og starfsfólks. Skólinn leiði upplýsta umræðu og verði aflvaki í jákvæðri þróun samfélagsins
  • Háskóli Íslands verði alþjóðlega öflugur rannsóknarháskóli og að sífelld þróun starfseminnar færi honum sérstöðu varðandi gæði kennslu og rannsókna sem tryggir honum óskorað traust
  • Rannsóknainnviðir, aðstaða og tækjakostur styðji skýrt við markmið skólans. Velferð nemenda og starfsfólks verði höfð að leiðarljósi sem geri skólann aðlaðandi og samkeppnisfæran.

Stefnan styður við sjálfbæra þróun í anda heimsmarkmiðanna

Stefnan hefur enn fremur sterka skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og gerir skólanum kleift að rækja forystuhlutverk sitt um sjálfbæra þróun í anda heimsmarkmarkmiðanna í samstarfi við fjölmiðla, samfélag, atvinnulíf og stjórnvöld til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og heiminn allan.

Við innleiðingu stefnunnar verður byggt á tíu verkefnastofnum sem snerta hin ólíku starfssvið skólans. Verkefnastofn er formleg umgjörð um umbótaverkefni sem varða heildarhagsmuni skólans og geta varað í nokkur ár. Sameiginlegt stefnubókhald með skýrum mælikvörðum verður innleitt samliða stefnunni til að gefa á hverjum tíma raunsanna mynd af framvindu og árangri hennar.  

Í morgun var opnaður sérstakur vefur um stefnuna þar sem finna má nánari upplýsingar um einstaka þætti hennar.

Jarðvísindafólk Háskólans verðlaunað fyrir frumkvæði og forystu

Hefð hefur skapast fyrir því á ársfundi Háskóla Íslands að veita hópum innan skólans viðurkenningu fyrir frumkvæði og forystu í störfum sínum. Að þessu sinni hlaut jarðvísindafólk skólans viðurkenninguna fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarf á sviði rannsókna í jarðvísindum, fagmennsku og miðlun þekkingar til samfélags og stjórnvalda. 

Jarðvísindafólk skólans hefur verið í eldlínunni í orðsins fyllstu merkingu undanfarna mánuði við rannsóknir og túlkun á jarðhræringum á Reykjanesi og í eldsumbrotum þar, líkt og í öðrum náttúruhamförum á síðustu árum og áratugum. Að baki liggur þrotlaus vinna stórs hóps sem er í fremstu röð á sínum fræðasviðum í heiminum og hefur  skapað nýja þekkingu á gangvirki náttúruaflanna sem eftir er tekið um allan heim. Hópurinn hefur sömuleiðis verið óþreytandi við að veita bæði stjórnvöldum og almannvörnum ráðgjöf um viðbrögð við náttúruvá og skýrt framvindu mála fyrir landsmönnum í viðtölum í fjölmiðlum á degi hverjum. Fyrir þessa þrotlausu vinnu vill Háskóli Íslands þakka.

Jón Atl Benediktsson í pontu