Skip to main content
22. mars 2021

Ný skýrsla um afstöðu Íslendinga til alþjóðamála

Ný skýrsla um afstöðu Íslendinga til alþjóðamála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mestur stuðningur er meðal Íslendinga með öflugu samstarfi við Norðurlöndin en einnig er mikill stuðningur með samstarfi við ESB, Þýskaland, Frakkland og Japan. Þá telur um helmingur landsmanna frekar eða mjög litla ógn steða að ríkinu. Þetta sýnir ný skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um afstöðu Íslendinga til alþjóðamála sem kynnt verður á morgun, 23. mars kl 10, á fjarfundi.

Fundurinn fer fram á zoom: https://eu01web.zoom.us/j/65170867509

Skýrslan, sem er á ensku og ber heitið „Pragmatic and Wary of Change: Icelanders Views on International Affairs, byggist á niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann að beiðni Alþjóðamálastofnunar og í samstarfi við skrifstofu Konrad Adenauer stofnunarinnar í Stokkhólmi.

Í könnuninni var spurt um afstöðu svarenda til alþjóðasamstarfs, bæði með einstaka ríkjum, ríkjahópum og alþjóðastofnunum. Mestur stuðningur er með öflugu samstarfi við Norðurlöndin, en einnig er mikill stuðningur með samstarfi við ESB, Þýskaland, Frakkland og Japan, svo dæmi séu tekin. Áberandi minni áhugi var á meira samstarfi við stórveldin, Bandaríkin, Rússland og Kína. Sérstaklega er áberandi hve margir vilja sjá minna samstarf við Bandaríkin og Kína. Þá var spurt í könnuninni um afstöðu til erlendra fjárfestinga á Íslandi, bæði almennt og til fjárfestinga Kína sérstaklega, en svarendur virðast hafa varann á sér varðandi þær síðarnefndu – en um tveir þriðju vilja verja íslenska hagkerfið gegn slíkum fjárfestingum.

Þegar spurt var um afstöðu til öryggismála var áberandi hve öruggir svarendur telja sig vera, en um helmingur telur frekar eða mjög litla ógn steðja að ríkinu. Það kemur ekki á óvart að heimsfaraldrar eru taldir skapa verulega ógn, sem og efnahagskreppur. Fáir telja hernaðarlegar ógnir af nokkru tagi steðja að Íslandi, en þó má sjá að aukinn áhugi stórvelda á Norðurslóðum veki ugg meðal svarenda. Flestir vilja sjá meira samstarf með Norðurlöndunum á sviði öryggismála og nærri jafn margir með Evrópusambandinu, eða um þriðjungur. Rúmur fimmtungur vill hins vegar aukið samstarf með NATO og Bandaríkjunum á því sviði og rétt rúmlega einn af hverjum tíu vill að Ísland auki eigin getu á sviði öryggis- og varnarmála.

Hvað varðar efnahags- og viðskiptamál þá telja fáir að Brexit styrki Evrópusamstarf en þótt ívið fleiri vilji styrkja sambandið við Bretland á kostnað sambandsins við ESB þá vilja fleiri halda samstarfinu í sama horfi, þ.e. að hætti EES-samningsins. Færi svo að hans nyti ekki við lengur telja 33% að betur færi á að Ísland gengi Í ESB, tæp 30% myndu vilja umfangsminni samning við ESB og 11% engan samning.

Viðburðurinn er á Facebook.

""