Skip to main content
14. júní 2018

Ný skýrsla staðfestir mikilvægi Tækniþróunarsjóðs

Nýlega gaf Tækniþróunarsjóður út ítarlega skýrslu um „Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs 2009-2013“ sem unnin var á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um nýsköpun og alþjóðaviðskipti, en Gunnar Óskarsson, lektor í Viðskiptafræðideild, hafði umsjón með gerð hennar.

Áhrifamatið byggist á fjórum meginstoðum, tveimur spurningalistakönnunum, annars vegar á meðal styrkþega og hins vegar á meðal umsækjenda sem ekki hlutu styrk á tímabilinu, eigindlegri rannsókn sem unnin var með viðtölum við sjö viðmælendur úr lagskiptu úrtaki styrkþega og loks tilviksathugun sjö fyrirtækja úr hópi styrkþega. Leitað var fyrirmynda að áhrifamati í öðrum löndum, m.a. hjá BIA (Brukerstyrt innovasjonsarena, Forskningsrådet Norge) og starfseiningar innan Norska rannsóknarráðsins sem hefur umsjón með styrkjum til fyrirtækja í ólíkri starfsemi, svipað og Tækniþróunarsjóður gerir.

Niðurstöður áhrifamatsins gefa til kynna að Tækniþróunarsjóður gegni mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi og sé gjarnan forsendan fyrir því að þekking og drifkraftur sem býr í íslenskum frumkvöðlum nái að skila raunverulegum árangri. Meðal helstu áhrifa sem styrkirnir höfðu eru jákvæð áhrif á efnahag styrkþega í formi aukinnar veltu og hagnaðar auk þess sem verkefnin skiluðu auknu aðgengi að nýjum mörkuðum erlendis. Þá höfðu styrkirnir jákvæð áhrif á aðgengi að öðru innlendu og erlendu fjármagni en þess má geta að íslensk fyrirtæki fá hlutfallslega fleiri styrki úr SME-sjóði Evrópusambandsins en fyrirtæki annars staðar á Norðurlöndunum og hefur umtalsverður hluti þeirra áður hlotið styrk hjá Tækniþróunarsjóði. Þá má nefna að styrkir Tækniþróunarsjóðs leiða til mikilvægs samstarfs og efla tengslanet bæði innanlands og erlendis við fyrirtæki, háskóla og rannsóknarstofnanir. Hvað þjóðhagsleg áhrif varðar þá sköpuðu styrkir sjóðsins ný störf hjá 70% styrkþega, í 64% tilfella leiddu þeir til aukinnar hlutdeildar ungs fólks í nýsköpun og í 34% tilfella til aukinnar hlutdeildar kvenna í nýsköpun og tækniþróun.

Meðal áþreifanlegra áhrifa Tækniþróunarsjóðs er að án styrkja sjóðsins hefði fjöldi nýsköpunarverkefna ekki orðið að veruleika. Meðal dæma sem sérstaklega er fjallað um í skýrslunni eru Nox Medical, sem þróar og framleiðir svefngreiningartæki, en fyrirtækið var á lista Financial Times yfir 1.000 örast vaxandi fyrirtæki í Evrópu 2016 og fékk yfir 200 milljónir króna samkeppnisstyrk frá Evrópusambandinu sama ár, Lauf forks sem þróar og framleiðir hjólagaffla á grundvelli þekkingar sem á rætur að rekja til stoðtækjafyrirtækisins Össurar og Oculis sem hefur þróað byltingarkennda tegund augndropa á grundvelli rannsókna í Háskóla Íslands, en þeir geta komið í staðinn fyrir krefjandi læknismeðferðar fyrir aðila sem eru með tiltekna tegund af gláku. Nýlega komu erlendir fjárfestar sem búa yfir gríðarlega mikilli þekkingu að Oculis og lögðu fram yfir tvo milljarða króna í eigið fé en fulltrúar fyrirtækisins telja að styrkir Tækniþróunarsjóðs hafi verið forsenda fyrir aðkomu þeirra. Nánari upplýsingar um fleiri verkefni má finna í skýrslunni sjálfri sem hægt er að nálgast á vefsíðu Rannsóknarmiðstöðvar um nýsköpun og alþjóðaviðskipti.

Gunnar Óskarsson er lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun nýsköpunar og alþjóðaviðskipti. Hann er forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um nýsköpun og alþjóðaviðskipti og hefur skrifað greinar og flutt erindi um þau viðfangsefni. Gunnar er með doktorspróf frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá IMD í Sviss. Hann hefur áratuga reynslu úr viðskiptalífinu og hefur ávallt lagt töluverða áherslu á nýsköpun í sínu starfi.

Hægt er að skoða skýrsluna með því að smella hér

Gunnar Óskarsson lektor