Skip to main content
15. september 2018

Ný fundaröð Vigdísarstofnunar um óravíddir tungumálanna

""

Óravíddir tungumálanna er heiti á nýrri fyrirlestraröð sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ýtti úr vör í haust. Tungumál heimsins eru þar skoðuð út frá fjölbreyttum sjónarhornum, svo sem bókmennta, kvikmynda, dægurmenningar, þýðinga og loftslagsumræðu.

Fyrirlestrarnir í röðinni eru alltaf á sama tíma og sama stað, á þriðjudögum kl. 16.15 í stofu 008 í Veröld – húsi Vigdísar. Fyrirlestraröðinni er skipt í fjögur þemu sem bera heitin 1) Um tungumál, 2) Bókmenntir, kvikmyndir og dægurmenning, 3) Loftslagsorðræðan og 4) Þýðandi – höfundur – heimur. Þrír eða fjórir fyrirlesarar koma að hverju þema og eru þeir ýmist innlendir eða erlendir, starfandi innan Háskóla Íslands eða utan hans.

Fyrirlestraröðin hófst þann 28. ágúst með erindi kínversk-breska listamannsins, rithöfundarins og kvikmyndagerðarkonunnar Xiaolu Guo um vanda þess að þýða menningu en uppvaxtarsaga hennar, Einu sinni var í austri, kom út hjá Angústúru fyrir tæpu ári síðan í þýðingu Ingunnar Snædal og hefur heillað íslenska lesendur. Næsta erindi verður þriðjudaginn 18. september en þá mun Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku við Mála- og menningardeild Háskólans, skyggnast inn í þá sköpunargleði sem einkennir afþreyingarmenningu, hvernig unnið er með það efni sem er til staðar og nýjar útgáfur og víddir skapaðar. Gunnella rýnir í stöðu afþreyingarmenningar hér á landi, þróun hennar og styrkleika. Meðal umfjöllunarefna verða búningamenning (CosPlay), áhugamannaskrif (fan-fiction og slash) og kvikspuni (LARP).

Meðal annarra fyrirlestra í haust má nefna erindi um loftslagsorðræðu í ríki Pútíns, viðhorf íslenskra stúdenta til tungumálanáms, hugmyndir vesturfaranna um varðveislu íslensku í Vesturheimi, bókmenntaarf Mesópótamíu auk pallborðsumræðna um samband þýðanda við höfund. 

Nánari upplýsingar um dagskrá fyrirlestraraðarinnar má finna á vef Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
 

Vörld - hús Vigdísar