Skip to main content
6. september 2019

Ný fundaröð um markaðsvæðingu háskóla

"Þekking til sölu? – Markaðsvæðing akademíunnar " er heiti á spánýrri fundaröð við Háskóla Íslands sem hefur göngu sína þann 13. september og lýkur 6. desember næstkomandi. Haldnir verða alls fjórir fundir þar sem leitað verður svara við spurningum er lúta að vaxandi markaðsvæðingu háskóla og hugsanlegum afleiðingum hennar.

Fundaröðin hefst föstudaginn 13. september með aðalfyrirlestri Ylvu Hasselberg, prófessor í hagsögu við Uppsalaháskóla. Hún mun fjalla um markaðsvæðingartilraunir háskóla í Svíþjóð og framtíð vísinda undir nýskipan í ríkisrekstri. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í menntavísindum og forseti Deildar menntunar og margbreytileika, mun bregðast við fyrirlestri Hasselberg. Að loknu erindi hennar verða málin rædd nánar í pallborði og sett í samhengi við þróunina á Íslandi. Þátttakendur í pallborði eru Ásgeir Brynjar Torfason, Berglind Rós Magnúsdóttir, Magnús Þór Torfason og Viðar Hreinsson. Fundarstjóri er Íris Ellenberger og hefst viðburðurinn kl. 14 í stofu H102 á Háskólatorgi.

Samhliða vaxandi markaðsvæðingu og alþjóðasamkeppni í háskólaumhverfinu hafa áherslur háskóla víða um heim tekið breytingum. Markmið fundaraðarinnar er að kynna rannsóknir sem snúa að markaðsvæðingu háskóla og hvetja til opinberrar umræðu um hverjar afleiðingarnar kunni að vera. 

Að sögn skipuleggjenda er meginviðfangsefni fundaraðarinnar hvernig margir háskólar eru farnir að haga sér eins og gerendur á markaði. „Afleiðingarnar eru margvíslegar, bæði fyrir háskólaumhverfið og atvinnulífið. Til að mynda ýtir markaðsvæðingin undir það viðhorf að menntun gagnist einstaklingnum fremur en samfélaginu. Við sjáum einnig aukna áherslu á að mennta fólk í greinum sem hafa mikið gildi á hinum kapítalíska markaði. Einn af fylgifiskum slíkrar þróunar er að litið er á nemendur sem neytendur á markaði og viðskiptasambandi komið á milli kennara og nemenda,“ segir Auður Magndís Auðardóttir, aðjunkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið og ein þeirra sem skipuleggur fundaröðina. 

„Afleiðingarnar eru margvíslegar, bæði fyrir háskólaumhverfið og atvinnulífið. Til að mynda ýtir markaðsvæðingin undir það viðhorf að menntun gagnist einstaklingnum fremur en samfélaginu. Við sjáum einnig aukna áherslu á að mennta fólk í greinum sem hafa mikið gildi á hinum kapítalíska markaði. Einn af fylgifiskum slíkrar þróunar er að litið er á nemendur sem neytendur á markaði og viðskiptasambandi komið á milli kennara og nemenda,“ segir Auður Magndís Auðardóttir, aðjunkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið og ein þeirra sem skipuleggur fundaröðina. 

Auður segir enn fremur að síðustu ár hafi það færst í vöxt að ríki og atvinnulíf stýri rannsóknum. Þannig geti minna svigrúm skapast fyrir frjálsa þekkingarsköpun sem ekki er með beinum hætti efnahagslega hagnýt. Pólitísk stýring af þessu tagi gjörbreyti einnig starfsumhverfi fræða- og háskólafólks sem einkennist í auknum mæli af lögmálum nýskipunar í ríkisrekstri.

Næstu þrír fyrirlestrar í fundaröðinni verða haldnir á föstudögum kl. 12.00-13.00 í sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Dagskráin er sem hér segir:

  • 11. október:
    • Eru háskólar reknir eins og smjörlíkisverksmiðjur? Arnar Pálsson, prófessor í lífupplýsingafræði
  • 8. nóvember: 
    • Hvernig kerfin breyta okkur og hvernig við breytum kerfunum. Ásgeir Brynjar Torfason, gestafræðimaður við Rannsóknastofnun Gautaborgarháskóla 
  • 6. desember:
    • Háskólar í fremstu röð – markaðsvæðing sem ýtir undir kynjamisrétti? Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræðum

Að fundaröðinni standa MARK – Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna, RannMennt – Rannsóknastofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti og ReykjavíkurAkademían.

Fundaröðin á Facebook

Þekking til sölu? – Markaðsvæðing akademíunnar er heiti á spánýrri fundaröð við Háskóla Íslands sem hefur göngu sína þann 13. september og lýkur 6. desember næstkomandi. Haldnir verða alls fjórir fundir þar sem leitað verður svara við spurningum er lúta að vaxandi markaðsvæðingu háskóla og hugsanlegum afleiðingum hennar.