Ný bók um Tyrkjaránið komin út | Háskóli Íslands Skip to main content

Ný bók um Tyrkjaránið komin út

11. júní 2018

Út er komin bókin The Corsairs´ Longest Voyage – The Turkish Raid in Iceland 1627 eftir Þorstein Helgason, dósent emeritus í sagnfræði og sagnfræðikennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Bókin fjallar um Tyrkjaránið árið 1627 þegar atvinnusjóræningjar, sem hér eru nefndir korsarar, komu frá Norður-Afríku siglandi til Íslands, herjuðu á strandhéruð, námu á brott um fjögur hundruð manns og seldu á þrælamarkaði. Tekið er á efninu frá fjölþættu sjónarmiði, atburðarás rakin í Norður-Afríku og á Íslandi, atburðirnir greindir í ljósi alþjóðlegs réttar og stjórnmála, minning atburðanna skoðuð í örnefnum, þjóðsögum, kirkjulist samtímans og kennslubókum seinni tíma. Sögð er saga nokkurra einstaklinga og valkostir þeirra vegnir.

Útgefandi bókarinnar er alþjóðlega fræðaforlagið Brill í Hollandi sem hefur gefið út fleiri rit um skyld efni og er mikilvirk útgáfa á sviði hugvísinda. Bókin mun því nýtast fræðimönnum á alþjóðlegu sviði.

Eftir Þorstein liggur fjöldi fræðigreina um Tyrkjaránið auk heimildamyndar í þremur hlutum um sama viðfangsefni sem frumsýnd var árið 2001 og alþjóðleg gerð hennar nokkru síðar undir heitinu Atlantic Jihad. Þorsteinn hefur einnig samið kennslubækur og ritað um námsgögn og kennslufræði sögu.

Út er komin bókin The Corsairs´ Longest Voyage – The Turkish Raid in Iceland 1627 eftir Þorstein Helgason, dósent emeritus í sagnfræði og sagnfræðikennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Bókakápan. Úgefandi bókarinnar er alþjóðlega fræðaforlagið Brill í Hollandi sem hefur gefið út fleiri rit um skyld efni og er mikilvirk útgáfa á sviði hugvísinda. Bókin mun því nýtast fræðimönnum á alþjóðlegu sviði.