Skip to main content
3. apríl 2019

Ný bók um sjónarmið barna um tengsl skóla og frístundaheimila

Út er komin bókin Listening to Children’s Advice about Starting School and School Age Care í ritstjórn Sue Dockett prófessors við Charles Sturt háskóla í Ástralíu, Jóhönnu Einarsdóttur prófessors við Háskóla Íslands, og Bob Perry prófessors emeritus einnig við Charles Sturt háskóla.

Bókin skiptist í ellefu kafla sem allir leggja áherslu á mikilvægi þess að hlusta á sjónarmið barna á mótum skólastiga og frístundaheimila. Umfjöllunin er greinandi og gagnrýnin og veltir upp aðferðafræðilegum álitamálum í rannsóknum með börnum og hvernig bregðast megi við sjónarmiðum barna á þeim mikilvægum tímamótum þegar þau flytjast milli skólastiga.

Kaflarnir greina frá rannsóknum í sjö löndum sem veita hagnýta jafnt sem fræðilega innsýn í sjónarmið barna og hvetja kennara til að ígrunda starf sitt. Leitast er við að tengja kenningar og fræðilega umfjöllun við starfshætti í skólum og frístundaheimilum.

Í kynningu á bókinni kemur fram að hún eigi mikilvægt erindi við fræðimenn, nema í menntunarfræðum, sem og kennara og tómstundafræðinga á vettvangi. Auk Jóhönnu skrifa þær Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Sara M. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri við sama svið, kafla í bókina.

Hið þekkta bókaforlag Routledge gefur bókina út.

Út er komin bókin Listening to Children’s Advice about Starting School and School Age Care hjá Routledge bókaforlaginu. Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, er ein þriggja ritstjóra bókarinnar.