Skip to main content
17. september 2020

Ný bók um miklar áskoranir á mannöldinni

""

„Það syrtir í álinn og ef fram fer sem horfir er lífríkið á vonarvöl. Og margur fyllist svartsýni og leggur árar í bát. Falsfréttir og hagsmunagæsla villa okkur sýn. Ég held samt í bjartsýnina, annars hefði ég ekki skrifað þessa bók,“ segir Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði, um bókina The Human Age, sem útleggst á íslensku Mannöldin, og kom út í dag á vegum breska forlagsins Welbeck. Þar er fjallað á afar skýran og aðgengilegan hátt um það hvernig gjörðir mannsins hafa haft geigvænleg áhrif á lífsskilyrði hans sjálfs og annarra dýrategunda en um leið hvaða leiðir standa okkur til boða fyrir bjartari og umhverfisvænni framtíð.

Umhverfismál og málefni norðurslóða hafa um langt árabil verið Gísla hugleikin í rannsóknum og skrifum en hann segir tilurð bókarinnar um mannöldina harla óvenjulega. „Í fyrra fékk ég fyrirvaralaust tilboð frá forlagi í London: „Myndirðu ekki vilja skrifa bók um svokallaða mannöld?“ Ég hugsaði málið, tíminn sem var ætlaður til verksins var óvenju skammur, ég var rétt að ljúka við verk sem lengi höfðu hvílt á mér og starfslok blöstu við. Kannski væri best, hugsaði ég, að einhver annar væri ráðinn í verkið. Ég varð þó að svara boðinu játandi. Gert var ráð fyrir að bókin yrði ríkulega myndskreytt og skrifuð á alþýðlegu máli. Mér rann blóðið til skyldunnar. Hér gæfist tækifæri til að viðra viðfangsefni, rannsóknir og sjónarmið sem ég hafði verið upptekinn af síðustu tvo áratugi eða svo og ná til mun stærri lesendahóps á engilsaxneskum mörkuðum en ég átti að venjast. Nú bæri mér nánast skylda til þess, með barnabörn mín og kynslóð þeirra í huga, að skrifa slíka bók,“ segir Gísli en bókina tileinkar hann einmitt barnabörnunum.

Úr varð að Gísli tók verkið að sér og hellti sér í skriftir og heimildavinnu með aðstoð góðs fólks. „Bókin er hugsuð fyrir allan almenning, ekki síst ungt fólk sem þarf að huga að framtíðinni, fyrir alla þá sem vilja kynna sér það sem best er vitað um áhrif mannsins á lífríki hnattarins, hvernig hamfarahlýnun bar að garði og hvernig hægt sé að sporna gegn henni og snúa þróuninni við,“ segir Gísli enn fremur.

Mannaldarhugtakið undirstrikar víðtæk áhrif mannsins á Jörðina

Óhætt er að segja að hugtakið mannöld, sem er þýðing á enska orðinu Anthropocene, sé rauður þráður í gegnum bókina. Þar er vísað til hinna miklu og afgerandi áhrifa sem maðurinn hefur haft á plánetuna. „Mannaldarhugtak samtímans kom fyrst fram í jarðvísindum um síðustu aldamót en aðrar greinar hafa einnig helgað sér það, raunar listaheimurinn líka og allur almenningur. Mannaldarbreytingar varða alla og framtíð alls lífs. Þótt deilt sé um skilgreiningar, hvenær mannaldarbreytingar hafi fyrst gert vart við sig og í hverju þær séu fólgnar, þykir mörgum brýnt að gefa þessu tímaskeiði nafn og aðskilja það frá fyrri skeiðum. Orð eru til alls fyrst. Oft er talað um „tíma hamfarahlýnunar“ og „loftslagsmál“, en þetta orðalag er of þröngt og misvísandi. Mannaldarhugtakið hefur þann kost að það undirstrikar að sá tími sem við lifum einkennist ekki aðeins af hamfarahlýnun heldur mörgu öðru, m.a. plastmengun, og maðurinn er bæði sökudólgurinn og sá sem ber mesta ábyrgð,“ segir hann. 

„Síðustu ár hafa mannfræðingar verið í fararbroddi mannaldarpælinga þar sem bent er á að maðurinn hafi nánast skráð sig í jarðsöguna þannig að náttúra og samfélag verði ekki aðskilin og brýnt sé að skilja nútímann vel og spyrna við fótum,“ segir Gísli Pálsson.

Maðurinn nánast skráð sig í jarðsöguna með gjörðum sínum

Eflaust velta einhverjir fyrir sér hvernig hugtakaheimur og aðferðir mannfræðinnar geta nýst til að varpa ljósi og finna lausnir á þeim mikla umhverfisvanda sem blasir við heimsbyggðinni. Gísli bendir á að mannfræðin hafi frá upphafi lagt áherslu á að skilja uppruna og sögu mannsins. „Hún er sjálfsskoðun og ættrækni tegundarinnar. Nú beinast sjónir mannfræðinga sérstaklega að upphafi mannaldarbreytinga, hvernig það bar til að maðurinn setti svip sinn á umhverfið, hvernig það birtist og hvaða áhrif það hefur á allt mannlíf. Í annan stað hafa mannfræðingar löngum haft áhuga á tengslum samfélags og umhverfis sem varpa að nokkru leyti ljósi á margbreytileika lífshátta vítt og breitt um heiminn. Í þriðja lagi eru mannfræðingar sérhæfðir í vettvangslýsingum, iðulega í beinni snertingu við það fólk sem reynir mannaldarbreytingar á eigin skinni. Síðustu ár hafa mannfræðingar verið í fararbroddi mannaldarpælinga þar sem bent er á að maðurinn hafi nánast skráð sig í jarðsöguna þannig að náttúra og samfélag verði ekki aðskilin og brýnt sé að skilja nútímann vel og spyrna við fótum,“ segir Gísli sem ekki er einhamur í skrifum sínum um áhrif mannsins á náttúruna því von er á annarri bók frá honum í október um endalok geirfuglsins hér við land.

Viðbrögð við COVID-19 vekja von um samstöðu manna

The Human Age er skipt í fjóra yfirkafla þar sem áhrif mannsins eru sett í sögulegt og samtímalegt samhengi og textinn er ríkulega studdur áhrifamiklum myndum og skýringarteikningum sem gerir efnið afar aðgengilegt. 

Fjórði kaflinn er sérstaklega helgaður spurningunni hvort einhver von sé fyrir okkur og aðrar dýrategundir í ljósi þess mikla skaða sem orðið hefur á mannöldinni. Þegar Gísli er sjálfur inntur eftir svari við spurningunni segist hann bjartsýnn. „Mannkynið hefur sýnt að það getur tekist á við hnattrænan vanda. Gott dæmi er sú almenna samstaða á seinni hluta síðustu aldar sem nánast stöðvaði eyðingu ósonlagsins í lofthjúpnum af mannavöldum sem ógnaði öllu lífi. Viðbrögð við COVID-19-faraldrinum undanfarna mánuði vekja líka von um að menn geti lagst á eitt þegar á reynir. Grasrótarhreyfingar gegn aldauða tegunda sýna sömuleiðis hvað hægt er með almennri samtöðu.“

The Human Age er væntanleg fjótlega í sölu í Bóksölu stúdenta og sömuleiðis má panta hana á vefverslunum, m.a. hjá Waterstones.

Gísli Pálsson og kápa bókarinnar