Skip to main content
18. janúar 2019

Ný bók um lýðræðislega starfshætti og stefnumótun á Íslandi

Út er komin bókin Íslenskt lýðræði. Starfsvenjur, gildi og skilningur í ritstjórn Vilhjálms Árnasonar og Henrys Alexander Henryssonar. Í bókinni er kastljósinu beint að starfsháttum og stefnumótun í stjórnmálum og færð rök fyrir því að brýnt sé að styrkja lýðræðislegar stofnanir og bæta stjórnsiði í ljósi hugmynda rökræðulýðræðis. Í bókinni fléttast saman heimspekileg hugtakagreining, sagnfræðileg rýni og félagsvísindalegar athuganir. Þessi aðferð, ásamt því að skoða lýðræði út frá vinnubrögðum og stjórnsiðum fremur en þátttöku borgaranna, er nýmæli í rannsóknum á íslensku lýðræði eftir hrun.

Bókin verður kynnt á ársfundi Siðfræðistofnunar sem verður haldinn í Odda 101 föstudaginn 25. janúar 2019 kl. 14. Þar munu höfundar kynna niðurstöður rannsóknaverkefnisins og að því loknu verða pallborðsumræðu um íslenskt lýðræði með þátttöku nokkurra íslenskra stjórnmálamanna. Þátttakendur verða Birgir Ármannsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Helgi Hrafn Gunnarsson. Pallborðinu stýrir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. 

Eftirfarandi erindi verða flutt á ársfundinum með stuttri kynningu á köflum bókarinnar:

  • Greining á íslensku lýðræði. Um rannsóknarverkefnið. Vilhjálmur Árnason.
  • Lýðræðisbyltingin – á Bessastöðum. Ragnheiður Kristjánsdóttir.
  • Þjóðaratkvæðagreiðslur, forsetaembættið og stjórnarskráin. Salvör Nordal.
  • Lýðræðishugmyndir almennings fram að fjármálakreppunni. Guðmundur Jónsson.
  • Sérstaða íslensks þingræðis. Gunnar Helgi Kristinsson.
  • Hugmyndin um eflingu þingeftirlits. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir.
  • Íslenska fjölmiðlakerfið. Þorbjörn Broddason og Ragnar Karlsson.
  • Hvað ætti að einkenna íslenskt lýðræði? Henry Alexander Henrysson.
Vilhjálmur Árnason og Henry Alexander Henrysson ritstýra bókinni Íslenskt lýðræði. Starfsvenjur, gildi og skilningur.