Skip to main content
20. desember 2016

Ný bók um líf og velferð ungs fólks

Út er komin bókin Ungt fólk – Tekist á við tilveruna í ritstjórn Sigrúnar Aðalbjarnardóttur, prófessors við Menntavísindasvið, Sóleyjar S. Bender og Guðrúnar Kristjánsdóttur, sem báðar eru prófessorar við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Fræðafólk á Menntavísinda-, Félagsvísinda- og Heilbrigðisvísindasviði ritar kafla í bókina um rannsóknasvið sín.

Í bókinni er fjallað um íslenskar rannsóknir á heilsu og velferð ungs fólks og gerður samanburður við önnur lönd. Ljósi er varpað á ýmis krefjandi viðfangsefni og áskoranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Togað er í ungt fólk úr mörgum áttum. Andstæð skilaboð geta komið frá samfélaginu annars vegar og foreldrum hins vegar og valdið togstreitu. Ungt fólk þarf ást, umhyggju og góða leiðsögn til að takast á við tilveruna. Bókin svarar ótal spurningum um líf og velferð ungs fólks og leggur til leiðir til að bæta líf þess.

Í formála bókarinnar ritar Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands: „Það má heita mælikvarði á menningarstig þjóðfélags hversu vel það býr að börnum og ungmennum, og fátt skiptir meira máli en líðan og aðbúnaður þeirra sem yngri eru. En til þess að komast á snoðir um hvar við erum stödd í þeim efnum þarf rannsóknir og athuganir, verkefni svo brýn að jafnvel fámennt þjóðfélag verður að sinna því ... Mig langar að óska aðstandendum þessarar bókar hjartanlega til hamingju fyrir þetta þarfa og merkilega framlag til velferðar og mannúðar á Íslandi.“

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og er hún fáanleg í Bóksölu stúdenta.

Bókakápa - ungtfólk tekist á við tilveruna