Skip to main content
23. september 2021

Ný bók um Jón Halldórsson biskup

Ný bók um Jón Halldórsson biskup - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Dominican Resonances in Medieval Iceland: The Legacy of Bishop Jón Halldórsson of Skálholt, í ritstjórn Gunnars Harðarsonar, prófessors í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, og Karls G. Johansson í Oslóarháskóla. Bókin er gefin út í ritröðinni The Northern World á vegum Brill-forlagsins í Leiden og Boston.

Bókin er afurð samnefnds málþings Miðaldastofu Háskóla Íslands sem haldið var í Skálholti í maí 2016. Hún fjallar um Jón Halldórsson, biskup í Skálholti (1322–1339), bakgrunn hans og áhrif í víðu samhengi. Jón var af reglu Dóminíkana, hafði stundað nám í lærdómslistum við háskólann í París og numið kirkjulög við háskólann í Bologna. Í bókinni er viðfangsefnið nálgast frá sjónarnhornum margra fræðigreina, svo sem sagnfræði, bókmenntafræði, hugmyndasögu, handritafræði, textafræði og tónlistarsögu. Fjallað er um menntun og skólagöngu Jóns biskups, framlag hans til íslenskra bókmennta, með sérstaka áherslu á fornaldarsögur á borð við Clári sögu og tengsl þeirra við prédikunarhefð Dóminíkana (exempla). Einnig er fjallað um sagna- og ævintýrahandrit, bréfagerðir, kirkjurétt, tónlist og helgisiði úr umdæmi Niðarósbiskupsdæmis, þar á meðal Þorlákstíðir. Samanlagt veita þessi ólíku sjónarhorn breiða innsýn í menningu Íslendinga og Norðmanna á miðöldum.

Höfundar efnis eru, auk ritstjóra, Astrid Marner (Kaupmannahöfn), Christian Etheridge (Kaupmannahöfn), Embla Aae (Bergen), Gisela Attinger (Oslo), Gottskálk Jensson (Kaupmannahöfn/HÍ), Hjalti Snær Ægisson (HÍ), Stefan Drechsler (Bergen), Védís Ragnheiðardóttir (HÍ) og Viðar Pálsson (HÍ).

Nánar á vef Brill.