Notar aðferðir í kennslu sem hefðu nýst honum í skóla | Háskóli Íslands Skip to main content
2. mars 2021

Notar aðferðir í kennslu sem hefðu nýst honum í skóla

Notar aðferðir í kennslu sem hefðu nýst honum í skóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

 „Áhugi minn á kennaranáminu kviknaði þegar ég vann sem stuðningsfulltrúi í nokkur ár, það starf gaf mér mjög mikið. Á þeim tíma var ég ekki tilbúinn að fara í kennaranám en vissi að ég myndi einn daginn starfa sem kennari,“ segir Guðmundur Lárus Guðmundsson, nýútskrifaður kennari frá Háskóla Íslands.
Guðmundur er í hópi fyrstu nemenda Menntavísindasviðs sem lýkur MT-prófi í kennaranámi. Um er að ræða 120 eininga meistarapróf til kennsluréttinda þar sem nemendur taka námskeið til 30 eininga í stað þess að vinna jafnstórt lokaverkefni. Hann telur kosti þessa fyrirkomulags ótvíræða. „Ég var byrjaður á meistararitgerð en átti erfitt með að tengja við hana. Að eiga kost á að dýpka þekkingu sína með því að taka námskeið í stað ritgerðar finnst mér hafa gefið mér mikið. Þegar nemandi er þátttakandi í námskeiði þá ræðir maður námsefnið við aðra og sér fleiri hliðar á málunum. Þetta er að mínu mati mjög mikilvæg viðbót við kennaranámið því ég hugsa að það séu margir í svipuðum sporum og ég. Efnið sem ég var kominn með í ritgerðina fór samt ekki til spillis því ég gat nýtt það í ýmis verkefni. Ég mæli heilshugar með MT-námsleiðum því þær skapa tækifæri á aukinni kunnáttu á þeim sviðum sem kennarar telja að komi þeim vel í starfi.“
 

Börn verða að skynja sína rödd

Störf með börnum eru ekki ný af nálinni hjá Guðmundi. Hann hefur unnið með börnum síðustu fimmtán árin víða um heim. „Ég hef t.d unnið í Kína, Gvuatemala, Bandaríkjunum, Jórdaníu og fleiri löndum í leik- og grunnskólum, hjá friðarsamtökum og á heimilum. Sú reynsla sem ég hef öðlast á þessu flakki hefur kennt mér að við erum öll lík þrátt fyrir að vera ólík. Burt séð frá aldri, kynþætti, trúarbrögðum og kyni þá viljum við öll finna okkar rödd í lífinu. Vera elskuð og finna ást og umhyggju, vera hamingjusöm, að borin sé virðing fyrir okkur og njóta lífsins á sem bestan hátt. Þessi lífsreynsla hefur einnig fært mér þá sannfæringu að öll börn hafa rödd og það er okkar starf sem fullorðnir einstaklingar að hlusta á þau. Það er mikilvægt að kenna börnum að vera undir öllum kringumstæðum þau sjálf án tillits til hvað öðrum finnst. Heimurinn væri dauflegur ef allir væru steyptir í sama mót.“

Slæm upplifun hafði áhrif á starfsvalið

Guðmundur hefur undanfarin tvö ár starfað sem umsjónarkennari í Háteigsskóla við góðan orðstír. Hann nálgast kennsluna með aðferðum leiðsagnarnáms en kennsluaðferðin er í hávegum höfð í skólanum. Leiðsagnarnámið snýst í stuttu máli um að kennari veiti nemendum sínum leiðsögn um nám, samskipti og öllu því sem viðkemur skólastarfinu. „Við leiðbeinum nemendum best með því að benda á það góða sem þau hafa gert og rýna ofan í það sem betur má fara. Mistök eru til að læra af þeim og þegar á öllu er á botninn hvolft þá snýst lærdómur um að hafa vaxandi hugarfar og gefast aldrei upp. Þessi valdefling gefur nemendum mikið og við sjáum þau blómstra í leik og starfi. Leiðsagnarnám er í miklu uppáhaldi hjá mér og er sú nálgun sem hefði gagnast mér í grunnskóla,“ lýsir Guðmundur en skólaganga hans framan af var síður en svo farsæl.

„Ég var ákaflega rólegur nemandi með ógreinda lesblindu. Ég týndist í hópnum og fékk ekki þann stuðning sem ég þurfti. Upplifun mín af grunnskólaárunum hafði mikil áhrif á val mitt á kennaranámi. Mig langaði að geta tekið þátt í því að styðja við börn á skólagöngunni, leggja mitt að mörkum við að halda utan um nemendur sem eiga í erfiðleikum og passa umfram allt að enginn gleymist. Öll börn geta lært en það er undir okkur komið að hvetja þau til dáða og vera þeim góðar fyrirmyndir. Þótt skólaganga mín hafi verið þyrnum stráð þá gafst ég ekki upp og hélt áfram námi. Mín lexía sem ég tek með mérí kennslu til nemenda minna er að láta aldrei deigann síga þótt vindar blási.“

Enska í uppáhaldi en móðurmálið sækir í sig veðrið

Enska varð fyrir valinu sem sérhæfing Guðmundar í kennaranáminu en hann lauk bakkalárgráðu í kennslufræði við Brunel-háskólann í Englandi. „Enska hefur alltaf verið mín sterkasta grein og í raun var það eina fagið í skóla þar sem ég fékk hvatningu. Ég bjó átta ár í London og þar talaði ég nær eingöngu ensku. Á þessum árum hrakaði íslenskunni minni en það hefur verið skemmtileg áskorun að efla hana eftir að ég hóf kennslu.“
Hann upplifir alla jafna mikinn stuðning sem nýr íslenskukennari, bæði frá samstarfsfólki og foreldrum. „Íslenska er eiginlega í uppáhaldi hjá mér um þessar mundir enda ótrúlega litríkt og fallegt tungumál. Ég á það enn til að „sletta“ aðeins á ensku en það fer minnkandi með hverjum deginum. Eins hef ég með árunum náð góðum tökum á lesblindunni.“

Hlakkar til að mæta í vinnuna hvern dag

Þótt kennsla sé starf sem margir heillast af standa íslenskir grunnskólar fyrir miklum áskorunum. Hefur það áhrif á daglegt líf innan veggja skólans? „Ég hef ekki starfað nægilega lengi í íslenskum skólum til að tjá mig að fullu um þetta málefni en ég upplifi aðallega plássleysi, stóra nemendahópa og skort á stuðningi og fjármagni. Þetta eru þættir sem hafa áhrif á kennsluna og þá þjónustu sem nemendur fá.“

Það er auðheyrt að Guðmundur á mikið erindi sem kennari. Lumar þú á góðum ráðum til nýútskrifaðra kennara? „Það er eðlilegt að fyrsta árið í kennslu sé krefjandi og það er ótrúlega mikið sem þarf að taka inn. Enginn dagur er eins og það gerir það að verkum að ég mæti til vinnunnar fullur tilhlökkunar alla daga. Ekki hika við að fá aðstoð frá samstarfsfólki varðandi kennslu, samskipti og starfið. Ég elska starfið mitt, vinnustaðinn minn, nemendur mína, samstarfsfólkið mitt því í vinnunni er ég er bara ég sjálfur og allir leyfa mér að vera það. Þetta kann að hljóma klisjukennt en að fara í kennaranám er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu,“ segir þessi metnaðarfulli kennari að lokum.

Framtíð íslenskra grunnskóla er björt með með fjölda nýútskrifaðra kennara á borð við Guðmund í farteskinu.

 „Áhugi minn á kennaranáminu kviknaði þegar ég vann sem stuðningsfulltrúi í nokkur ár, það starf gaf mér mjög mikið. Á þeim tíma var ég ekki tilbúinn að fara í kennaranám en vissi að ég myndi einn daginn starfa sem kennari,“ segir Guðmundur Lárus Guðmundsson, nýútskrifaður kennari frá Háskóla Íslands. Guðmundur er í hópi fyrstu nemenda Menntavísindasviðs sem lýkur MT-prófi í kennaranámi. MYND/Kristinn Ingvarsson