Skip to main content
28. janúar 2020

Netnámskeið um sauðfjárbeit meðal þeirra bestu árið 2019

Netnámskeið um áhrif sauðfjárbeitar á Íslandi, sem Háskóli Íslands og fleiri innlendar stofnanir standa að innan edX-samstarfsins svokallaða, hefur verið valið eitt af 30 bestu opnu netnámskeiðum ársins 2019 samkvæmt Class Central, stærstu leitarvélarinnar á netinu fyrir slík námskeiðið.

Námskeiðið ber heitið Sauðfé í landi elds og ísa (e. Sheep in the Land of Fire and Ice) og er svokallað MOOC-námskeið (Massive Open Online Course). Það er vistað innan svokallaðs edXEdge-nets sem hefur að geyma fjölda slíkra námskeiða. Að því standa Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins og Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. 

Námskeiðinu er skipt í fimm hluta þar sem nemendur fræðast m.a. um sauðfjárbeit á Íslandi fortíð, nútíð og framtíð og þýðingu hennar í sögulegu, menningarlegu og efnahagslegu samhengi, en slík beit hefur haft áhrif á bæði samfélag og umhverfi allt frá landnámi. Kennarar í námskeiðinu eru helstu sérfræðingar landsins í þessum efnum, þar á meðal úr Háskóla Íslands. Námskeiðið er á ensku og er því opið nemendum alls staðar að úr heiminum.  Meira en 700 nemendur frá 71 landi hafa skráð sig í námskeiðið frá því að það var opnað fyrir réttu ári.

Námskeiðið er eitt fjögurra sem Háskóli Íslands hefur hleypt af stokkunum frá því að hann varð hluti af edX árið 2017 en netið stofnuðu bandarísku háskólarnir Harvard og MIT. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri alþjóðlega og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar í tækni og samfélagi. 

Class Central er sem fyrr segir stærsta leitarvélin á netinu fyrir netnámskeið en áherslur vettvangsins eru fyrst og fremst á opin MOOC-námskeið háskóla innan samstarfsneta eins og edX. Class Central hefur undanfarin ár birt lista yfir bestu nýju netnámskeiðin og byggist listinn á mati og einkunnagjöf þeirra sem taka námskeiðin. Fram kemur á vef Class Central að árið 2019 hafi yfir 2.400 ný námskeið verið birt á leitarvélinni og því er samkeppnin afar hörð.

Lista Class Central yfir bestu opnu netnámskeið ársins 2019 má nálgast á vef leitarvélarinnar.

 

íslenska sauðkindin