Skip to main content
16. apríl 2020

Nemendur með netsýningu á tímum samkomubanns

""

Mismunandi aðferðir og miðlar koma saman á netlistasýningunni Samkoma sem samanstendur af verkum eftir átta alþjóðlega listnema á myndlistarbraut Listaháskóla Íslands. Sýningin er samstarf meistaranema við Háskóla Íslands og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands og stóð til að opna sýninguna í Veröld - húsi Vigdísar við Háskóla Íslands. Vegna heimsfaraldurs og samkomubanns var sýningin færð yfir á vefsvæðið samkoma.cargo.site og verður vefsíðan formlega opnuð kl. 17 fimmtudaginn 16. apríl.

Titillinn Samkoma var valinn nokkrum vikum áður en reglur um samkomubann voru kynntar á Íslandi og var hann meðal annars innblásinn af byggingunni Veröld sem er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og hýsir aðstöðu fyrir fyrirlestra- og ráðstefnuhald ásamt því að vera staður fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum. Tungumál tengja fólk og færa þau nær hvert öðru og fjallar sýningin um samkomu ólíkra listamanna og verka þeirra. Í aðdraganda sýningarinnar unnu listamennirnir út frá rótum og merkingu orðsins veröld - eða heimur einstaklingsins. Forn-enska orðið Weorold þýðir: öld eða líf mannsins og tengist það hugtakinu lífheimur úr fyrirbærafræði sem Edmund Husserl skrifaði um á þriðja áratug 20. aldarinnar. Lífheimurinn er einfaldlega hinn huglægi heimur einstaklingsins - sá heimur sem við lifum og hrærumst í frá degi til dags og eigum í stöðugu trúnaðarsambandi við. Það var mat Husserls að vísindin gerðu lítið úr þessum heimi og teldu hann á einhvern hátt ómerkilegri en heim vísindalegra sanninda. Husserl talaði fyrir nauðsyn þess að gera grein fyrir veruleikanum eins og hann birtist raunverulegum, lifandi, mennskum vitundarverum.

Eitt af verkum sýningarinnar heitir Ósýnileg ógn og er eftir Solveigu Pálsdóttur. Um er að ræða innsetningu sem samanstendur af tíu misstórum hringlaga speglum sem hanga á vegg. Á hverjum þeirra má sjá mynd sem sýnir mismunandi myndbirtingu ótta. Fyrir framan speglana hanga þrjár hringlaga glerplötur, sem hver sýnir einskonar mandölur sem byggjast á mynstri þriggja mismunandi veira, sem listamaðurinn óttast mest: plágan, HIV og COVID-19. 
 

Á sýningunni Samkoma eru ólíkum verkum eða heimum stillt saman og verður með því til nýtt abstrakt form eða nýr heimur þar sem fólk getur komið saman og upplifað veröldina á nýjan hátt.

Listamenn:

Auður Aðalsteinsdóttir (IS)
Brian Wyse (IRE)
Eugénie Touzé (FR)
Evija Pintane (LV)
Júlía Mogensen (IS)
Romain Causel (FR)
Solveig Pálsdóttir (IS)

Sýningastjórar:
Auður Inez Sellgren (IS/NO)
Estrid Thorvaldsdóttir (SE/IS)
Hrafnhildur Gissurardóttir (IS)
Jennifer Barrett (UK)

Kennari HÍ:
Æsa Sigurjónsdóttir

Kennari LHÍ:
Páll Haukur Björnsson