Nemendur HÍ styrktir til sumarnáms við Stanford | Háskóli Íslands Skip to main content

Nemendur HÍ styrktir til sumarnáms við Stanford

13. júní 2017

Átta nemendur Háskóla Íslands halda til náms við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum í sumar í svonefnt Stanford Summer Session´s International Honors Program. Sumarnámið við Stanford nær yfir átta vikur og þar taka nemendur námskeið sem þeir fá metin til eininga í námi sínu við Háskóla Íslands.

Þrír nemendur hljóta að þessu sinni styrk frá Stanford og Háskóla Íslands til námsins, þeir Gunnlaugur Helgi Stefánsson og Helgi Hilmarsson, nemar í eðlisfræði, og Þórir Már Ingólfsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði. Auk þeirra halda Benedikt Guðmundsson, nemi í viðskiptafræði, Björn Guðmundsson, nemi í hugbúnaðarverkfræði, Bryndís María Ragnarsdóttir, nemi í eðlisfræði, Erla Ylfa Óskarsdóttir, nemi í lögfræði, og Nína Arnarsdóttir, nemi í sálfræði, til náms við Stanford í sumar. Þetta er sjöunda árið sem nemendur Háskóla Íslands fá þetta einstæða tækifæri við þennan víðkunna háskóla og hafa fyrri þátttakendur borið mikið lof á námið.

Stanford-háskóli í Kaliforníu er einn fremsti háskóli heims og býður upp á nám á breiðu sviði. Það er ótvírætt mikill fengur að samstarfi Stanford og Háskóla Íslands en samningur milli skólanna var undirritaður 2010. Sumarnámið við Stanford er í senn afar fjölbreytilegt og eftirsóknarvert fyrir nemendur Háskóla Íslands og gerir þeim kleift að kynnast einstöku vísindasamfélagi. Þess má geta að frumkvöðlar úr röðum Stanford-nemenda hafa átt þátt í stofnun margra heimsþekktra fyrirtækja.

Nemendurnir átta sem halda utan til náms í Stanford í sumar ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Friðriku Harðardóttur, forstöðumanni Skrifstofu alþjóðasamskipta.

Netspjall