Skip to main content
25. ágúst 2017

Náttúra Íslands í aðalhlutverki í vinsælu námskeiði

Hátt í þrjátíu nemendur við Menntavísindasvið og Félagsvísindasvið taka þátt í þverfaglegu námskeiði um ferðalög og útilíf þessa dagana þar sem vettvangur námsins er íslensk náttúra. 
 
Námskeiðið hófst með undirbúningsfundi þann 16. ágúst síðastliðinn en meginþungi námsins fer fram í þriggja daga ferðalagi um hálendi Íslands. Þar verður fjallað um hugmyndafræði útilífs og nemendum veitt tækifæri til þess að æfa teymisvinnu, takast á við fjölbreyttar áskoranir og ígrunda eigin reynslu. Í námskeiðinu er unnið í þverfaglegum hópum að sameiginlegum viðfangsefnum, þ.e. ígrundun, útilífi og sjálfbærni með áherslu á persónulegan og faglegan þroska þátttakenda. 
 
 „Við vildum nýta sumarið til náms og gefa nemendum kost á að læra nýja hluti með því að fara í nokkra daga göngu. Segja má að námskeiðið sé ein af birtingarmyndum úti- og ævintýramenntunar. Reynsla okkar sem höfum kennt á námskeiðinu síðustu ár er sú að það hefur skapað farveg fyrir fjölþætta reynslu og gjarnan leitt til þekkingarsköpunar og þroska hjá nemendum,“ segir Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt í tómstunda- og félagsmálafræði og einn af leiðbeinendum í námskeiðinu, en hann segir að svipuð námskeið séu í boði við fjölda háskóla víða um heim.
 
Jakob telur að umhverfið skipti miklu máli í þessu samhengi. „Náttúran og þær kennsluaðferðir sem við beitum virðast hafa víðtæk áhrif á nemendur. Má þar nefna þætti eins og aukna seiglu, meiri sveigjanleika, getu til að takast á við siðferðileg álitamál, aukið þol fyrir óreiðu og ófyrirsjáanleika, að eiga sterka hlutdeild í og öðlast betri vitund fyrir náttúrunni.“
 
Þetta er í fjórða skipti sem boðið er upp á námskeiðið við Háskóla Íslands en hingað til hafa nemendur komið úr ferðamálafræði, jarðfræði, líffræði, félagsráðgjöf, uppeldis- og menntunarfræði, tómstunda- og félagsmálafræði og kennslufræði. Leiðbeinendur í námskeiðinu auk Jakobs eru Karen Rut Gísladóttir, lektor við Kennaradeild, og Hervör Alma Árnadóttir, lektor við Félagsráðgjafadeild. 

Jakob Frímann Þorsteinsson