Skip to main content
20. október 2016

Náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands í 35 ár

Í dag, 20. október, er dagur náms- og starfsráðgjafar á landsvísu. Þáttur hennar hefur aukist með hverju árinu innan Háskóla Íslands en Náms- og starfsráðgjöf skólans hefur um þessar mundir verið starfrækt í 35 ár.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa og annars starfsfólks Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ) er að veita stúdentum háskólans margs konar stuðning og þjónustu meðan á námi stendur. Eins og tíðkast víða erlendis er áhersla lögð á heildstæða náms- og starfsráðgjöf sem nær til námsvals, stuðnings meðan á námi stendur og þar til stefna er tekin á vinnumarkað að loknu námi. Við framkvæmd og mótun þjónustunnar er tekið mið af nýrri stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2016-2021 (HÍ21), ekki síst þeirra þátta stefnunnar sem snúa að námi og kennslu, virkri þátttöku Háskólans í samfélagi og atvinnulífi og mannauði.

Þjónusta NSHÍ er þrískipt.

1.      Námsráðgjöf snýst í stuttu máli um ráðgjöf um námsval og upplýsingagjöf, framvindu náms og vinnubrögð í háskólanámi. Undir þennan lið fellur einnig þátttaka í viðburðum til að kynna Háskóla Íslands fyrir verðandi stúdentum og brúa bilið úr framhaldsskóla í háskóla. Má þar nefna kynnisferðir á landsbyggðinni, Háskóladaginn og Háskólahermi.

2.      Starfsráðgjöf felst í leiðsögn um gerð ferilskrár (CV, Resumé), og kynningarbréfs ásamt undirbúningi fyrir atvinnuleit og atvinnuviðtöl. Tilkoma Tengslatorgs HÍ býður upp á aukna möguleika í þessu samhengi.

3.      Sértæk þjónusta er í boði fyrir fatlaða stúdenta og stúdenta sem glíma við sértæka námsörðugleika eða langvarandi veikindi. Sálfræðingur NSHÍ veitir sálfræðiráðgjöf auk þess sem cand.psych. nemar Sálfræðideildar háskólans bjóða sálfræðilega þjónustu. Síðast en ekki síst þá veita náms- og starfsráðgjafar stúdentum ráðgjöf vegna persónulegra eða félagslegra erfiðleika meðan á námi stendur.

Úrval lengri og styttri námskeiða og vinnustofa eru í boði ásamt örfyrirlestrum í hádeginu. Helstu viðfangsefni eru vinnubrögð og námsvenjur, tímastjórnun, markmiðssetning, undirbúningur fyrir skrif lokaverkefna og atvinnuleit, prófkvíði, prófundirbúningur, streitustjórnun, sjálfstyrking og margt fleira.

NSHÍ sinnir fjölda annara verkþátta. Einn þeirra er starfsþjálfun meistaranema í náms- og starfsráðgjöf. Nemar taka þátt í fjölbreyttu starfi NSHÍ og fá reynslu í faglegum vinnubrögðum á svið náms- og starfsráðgjafar en um leið tekur NSHÍ þátt í mótun fagstéttar náms- og starfsráðgjafa og fylgist með nýjungum í faginu sem auka gæði þjónustunnar. Náms- og starfsráðgjöfin tekur einnig þátt í ýmsu erlendu samstarf um starfsráðgjöf og sértæka þjónustu á háskólastigi.

Starfsheitið náms- og starfsráðgjafi er lögverndað og mega þeir einir nota það sem hafa tilskylda menntun og leyfisbréf frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.  Til marks um gæði þjónustu NSHÍ þá eru allir náms- og starfsráðgjafar NSHÍ með leyfisbréf og vinna samkvæmt siðareglum Félags náms- og starfsráðgjafa.

Við óskum notendum þjónustu náms- og starfsráðgjafar og náms- og starfsráðgjöfum um land allt til hamingju með daginn og hvetjum háskólastúdenta til að kynna sér gagnlegt efni á vef NSHÍ og fylgjast með því sem er í boði hverju sinni á.

Starfsmenn Náms- og starfsráðgjafar
Starfsmenn Náms- og starfsráðgjafar