Skip to main content
2. mars 2018

Nám, nýsköpun og rannsóknir á Háskóladeginum

Bragðlaukaþjálfun, örnámskeið í rússnesku, mögnuð sýning hjá Sprengjugenginu og jarðskjálftaborð sem hermir eftir Suðurlandsskjálftanum 2008 auk kynningar á um 400 námsleiðum í grunn- og framhaldsnámi er meðal þess sem í boði verður í Háskóla Íslands þegar Háskóladeginum verður fagnað laugardaginn 3. mars kl. 12-16.

Háskólinn opnar dyr sínar upp á gátt fyrir landsmönnum öllum á Háskóladeginum og býður upp á ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna nám, nýsköpun, rannsóknir og vísindi í litríku og lifandi ljósi. Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Margþætt þjónusta skólans, félagslíf og starfsemi verður kynnt og hægt að skoða rannsóknastofur, tæki og búnað. 

Í boði verður lifandi og litrík vísindamiðlun þar sem gestir geta m.a. fræðst um undraveröld alheimsins með Sævari Helga, tekið þátt í bragðlaukaþjálfun, hlýtt á 1001 nótt á arabísku og séð magnaða sýningu Sprengjugengisins með Sprengju-Kötu í fararbroddi. Þá verður hægt að skella sér á örnámskeið í rússnesku og þýsku, taka þátt í stökkmælingum, ljóðagjörningi og fá útreikninga á próteinþörf. Auk þess geta áhugasamir lært heimlich-takið, hjartahnoð og endurlífgun og kynnt sér töfrandi japanska bardagalist. Kínverski drekinn ógurlegi verður á ferðinni og rafknúni kappakstursbíllinn LAKI frá Team Spark verður til sýnis, en þetta er aðeins brot af dagskránni. 

Öll fræðasvið með kynningu á háskólasvæðinu
Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:
    Félagsvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
    Heilbrigðisvísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
    Hugvísindasvið: Veröld, 1. hæð 
    Menntavísindasvið: Háskólatorg, 2. hæð
    Verkfræði- og náttúruvísindasvið: Askja

Fjölskrúðug dagskrá í fjölmörgum byggingum
•    Í hinni nýju og glæsilegu byggingu Veröld - húsi Vigdísar verður nám í hugvísindum kynnt og jafnframt boðið upp á pakkfulla dagskrá. Meðal annars verður hægt að hlýða á Háskólakórinn og ljóðalestur á ensku og kynna sér karabíska dansa undir ljúfum tónum og Ju Jitsu, elstu bardagalist Japans. Þá býðst gestum að taka þátt í ljóðagjörningi, skella sér á örnámskeið í rússnesku og þýsku og sjá kínverska drekann liðast um bygginguna svo eitthvað sé nefnt. 
•    Á Háskólatorgi, hjarta skólans, verður ys og þys en þar kynna fulltrúar Félagsvísindasviðs,  Menntavísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs fjöldan allan af námsleiðum. Þar verður einnig hægt að taka þátt í gripstyrksmælingum, blóðsykursmælingum og fræðast um góða handhreinsun. Einnig verður boðið upp á bragðlaukaþjálfun, útreikninga á próteinþörf einstaklinga, stökkmælingar og þjálfun í heimlich-takinu, hjartahnoði og endurlífgun. 
•    Í Öskju verður auk námskynningar í verkfræði- og náttúruvísindagreinum boðið upp á ferðir upp í himinhvolfin í Stjörnutjaldinu með Sævari Helga Bragasyni vísindamiðlara og hægt að hlýða á hvalahljóð úr undirdjúpunum. Jarðskjálftaborðið, sem bæði hristir turna sem nemendur hafa smíðað og eftirlíkingu af íbúð með tilheyrandi húsgögnum, verður einnig á staðnum. Á jarðskjálftaborðinu verða raunverulegir jarðskjálftar á borð við Suðurlandsskjálftann og skjálftann í Nepal 2015 endurteknir. Rannsóknarstofur eru opnar, lifandi krabbadýr á staðnum, rafknúni kappakstursbíllinn LAKI sem félagar Team Spark hafa smíðað og síðast en ekki síst bjóða eldfjallafræðingar upp á gómsætar, glóðarsteiktar pylsur.  
•    Á Háskólatorgi verða einnig fulltrúar frá Nemendaskrá skólans, Skrifstofu alþjóðasamskipta og Náms- og starfsráðgjöf og svara þeim spurningum sem brenna á gestum. Á staðnum verða jafnframt fulltrúar jafnréttisnefnda sem ræða jafnrétti í víðum skilingi. Starfsmenn Félagsstofnunar stúdenta veita að auki upplýsingar um Stúdentagarða, leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir þá. 
•    Auk þess eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst með námskynningu á 1. hæð Háskólatorgs en þar verður jafnframt að finna fulltrúa Endurmenntunar Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. Tæknifræðinám Keilis verður hins vegar kynnt í Öskju.
•    Félagar úr Sprengjugengi Háskóla Íslands, sem er fyrir löngu orðið landsþekkt, verða með kraftmikla og litríka sýningu í sal 1 í Háskólabíói kl. 14 en á því sviði munu félagar í Háskóladansinum einnig sýna listir sínar. Enn fremur verður boðið upp á Vísindabíó í salnum á undan og eftir sýningum Háskóladansins og Sprengjugengisins. Í Háskólabíói verður Vísindasmiðjan sívinsæla opin frá kl. 12-16. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar að finna fjölmörg tæki og tól sem varpa skemmtilegu og forvitnilegu ljósi á vísindin.

Háskólinn í Reykjavík verður með námskynningar í húsakynnum Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í sínum húsakynnum á Laugarnesvegi. Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði á Háskóladeginum. 

Dagskrá Háskóladagsins
Frá Háskóladeginum 2017