Nærri hundrað milljónir til rannsókna á ofbeldi frá ólíkum hliðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Nærri hundrað milljónir til rannsókna á ofbeldi frá ólíkum hliðum

27. mars 2019

Tvö rannsóknarteymi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands voru meðal þeirra sem hlutu nýverið styrki samanlagt að upphæð nærri hundrað milljónir króna úr Rannsóknarsjóði Íslands til rannsókna á ofbeldi. Önnur rannsóknin lýtur að kortlagningu reynslu innflytjendakvenna af heimilis- og starfstengdu ofbeldi en hin miðar að því að auka þekkingu á ofbeldi í nánum samböndum.

Brynja Elisabeth Halldórsdóttir lektor og Jón Ingvar Kjaran dósent, bæði á Menntavísindasviði, eru í forsvari fyrir rannsóknina Immigrant Women, sem hefur það markmið að kanna reynslu innflytjendakvenna af heimilis- og starfstengdu ofbeldi. Í teyminu auk þeirra eru Randi Whitney Stebbins verkefnisstjóri og Susan Elizabeth Gollifer aðjunkt.

Brynja segir að í kjölfar #metoo-byltingarinnar hafi konur af erlendum uppruna á Íslandi deilt reynslu sinni af líkamlegu og andlegu ofbeldi í stórum stíl. „Ofbeldi gegn konum er eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum í heiminum í dag. Konur af erlendum uppruna eru viðkvæmur hópur sem hefur hingað til ekki fengið mikla athygli rannsakenda.“ 

Jón Ingvar, Guðrún Kristinsdóttir prófessor og Katrín Ólafsdóttir doktorsnemi mynda teymi rannsóknar sem snýr að því að auka þekkingu á ofbeldi í nánum samböndum. Í verkefninu er kafað inn í reynsluheim íslenskra karla sem beitt hafa maka sína ofbeldi. 

Jón Ingvar segir að nær engar íslenskar rannsóknir hafi verið gerðar þar sem sjónarhorninu er beint að reynslu karla sem beita maka sína ofbeldi. „Það liggja heldur engar rannsóknir fyrir sem skoðað hafa hvaða sýn þeir hafa á föðurhlutverkið og afar fáar rannsóknir á alþjóðlegum vettvangi hafa beinst að feðrun og föðurhlutverkinu.“

Rannsóknirnar tvær hljóta samanlagt tæplega hundrað milljóna króna styrk sem nær yfir þriggja ára tímabil. 

Menntavísindasvið Háskóla Íslands óskar styrkhöfum hjartanlega til hamingju. 
 

Tvö rannsóknarteymi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands voru meðal þeirra sem hlutu nýverið styrki samanlagt að upphæð nærri hundrað milljónir króna úr Rannsóknarsjóði Íslands til rannsókna á ofbeldi. Brynja Elisabeth Halldórsdóttir lektor og Jón Ingvar Kjaran dósent, bæði á Menntavísindasviði,