Skip to main content
15. júní 2020

Nærri 180 brautskráð frá Endurmenntun

Brautskráning kandídata frá Endurmenntun Háskóla Íslands fór fram við hátíðlega athöfn í Háskólabíó föstudaginn 12. júní 2020. Alls voru 179 kandídatar brautskráðir af sjö námsbrautum, Fjölskyldumeðferð - diplómanámi á meistarastigi, Hugrænni atferlisfræði í lífi og starfi, Jákvæðri sálfræði - diplómanámi á meistarastigi, Námi til löggildingar fasteigna- og skipasala, PMTO meðferðarmenntun, Sálgæslu - diplómanám á meistarastigi og Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. 

Krefjandi aðstæður á vorönn

Kristín Jónsdóttir Njarðvík endurmenntunarstjóri flutti ávarp við upphaf athafnarinnar og þakkaði nemendum og kennurum sérstaklega fyrir útsjónarsemi og sveigjanleika við þær krefjandi aðstæður sem mynduðust á vorönninni þegar samkomubann var sett á og byggingum Háskólans lokað. Þurftu þá allir að aðlaga sig í snatri að óhefðbundnu kennslufyrirkomulagi í gegnum fjarskiptaforritið Zoom og tókst önnin betur upp en á horfðist í fyrstu. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hélt svo stutt erindi og sendi góða kveðju til aðstandenda sem fylgdust með útskriftinni í gegnum streymi heima í stofu. 

Þarf hugrekki til að fara í nám 

Hátíðarræðu flutti Helga Þórðardóttir, kennslustjóri Fjölskyldumeðferðar - diplómanám á meistarastigi. Kom hún inn á ýmsa þætti og þar á meðal að sú ákvörðun að fara í nám krefjist hugrekkis af viðkomandi enda þarf oft að færa fórnir á meðan nám er stundað, hvort sem það er tími með fjölskyldunni eða minni athygli í vinnunni. 

Fyrir hönd nemenda flutti Arnar Þór Jónsson, kandídat úr Sálgæslu - diplómanámi á meistarastigi, ávarp. Hann minnti okkur á að menntun eigi sér langa og margslungna sögu og hefur meðal annars verið notuð sem vopn yfirvalds gegn þegnum sínum. Í grunninn væri tilgangur menntunar hins vegar að auðga andann, víkka hugann og veita okkur frelsi til gagnrýninnar hugsunar. Hlutverk menntunar væri því afar mikilvægt í upplýsingaflæði nútímans þar sem oft er ekki allt sem sýnist. 

Háskóli Íslands óskar útskriftarnemendum okkar innilega til hamingju með áfangann og þökkum fyrir samleiðina undanfarin misseri.  
 

Frá brautskráningu