Skip to main content
25. ágúst 2017

Móttaka meistaranema hjá Viðskiptafræðideild

Fimmtudaginn 24. ágúst síðastliðinn var haldin móttaka fyrir framhaldsnema sem eru að hefja nám við deildina.

Ingi Rúnar Eðvarðsson, deildarforseti Viðskiptafræðideildar, bauð nemendur velkomna til starfa þetta skólaárið. Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, var næstur á svið en Jón sagði frá reynslu sinni af deildinni sem er orðin umtalsverð. Jón hefur bæði lokið MBA gráðu árið 2012 og meistaragráðu í viðskiptafræði sem hann lauk 2016. Jón lagði áherslu á það í ávarpi sínu hvernig námið hafi nýst honum í starfi og minntist á að kennarar við deildina væru framúrskarandi að hans mati og að gæði meistaranáms við deildina væri mikil.

Nemendafélagið Maestro kynnti svo starfsemi sína fyrir nemendum. Magnús Þór Torfason, formaður meistaranámsnefndar ræddi við nemendur um þær fjölbreyttu námslínur sem Viðskiptafræðideild hefur upp á að bjóða og fyrirkomulag þeirra. Að lokinni formlegri dagskrá hittu nemendur umsjónarmenn þeirra 12 námslína sem eru við deildina á meistarastigi og gafst tækifæri til að kynnast betur.

Við bjóðum nýja framhaldsnema velkomna við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Smelltu á myndina hér að neðan til að sjá fleiri myndir frá móttökunni.