Mjaltastúlkan flýtur á ný á öldum ljósvakans | Háskóli Íslands Skip to main content
20. október 2019

Mjaltastúlkan flýtur á ný á öldum ljósvakans

Líkan af Mjaltastúlkunni

Sýndarköfun í Breiðafirði og þrívíddarlíkan af skipsflakinu Mjaltastúlkunni, sem strandaði við Flatey fyrir réttum 360 árum, hefur algerlega slegið í gegn.  Fréttir af þessari nýstárlegu vísindamiðlun hafa birst í fjölmiðlum um allan heim síðustu dagana.  Það eru vísindamenn við Háskóla Íslands og Flinders-háskóla í Ástralíu sem hafa þróað sýndarveruleika sem gerir hverjum sem er kleift að „kafa“ umhverfis flak hollenska kaupskipsins Melckmeyt eða Mjaltastúlkunnar. Að rannsókninni komu einnig vísindamenn frá Hollandi og Írlandi. 

Hér er um algerlega nýja aðferð að ræða við að birta niðurstöður rannsókna og hefur þessi stafræna fornleifafræði ratað í fréttir í þremur heimsálfum, m.a. á BBC, Daily Mail, Sky news, Smithsonian, Fox News og í Fréttablaðið hér heima. Segja má að flakið af Mjaltastúlkunni fljóti nú á ný en í þetta skiptið einuvörðungu á öldum ljósvakans. 

„Meginafurð rannsóknanna, doktorsritgerðin mín, verður hugsanlega lesin af innan við hundrað manns en með þessari nálgun er mögulegt að þúsundir – jafnvel milljónir geti hagnýtt sér niðurstöðurnar á afar skemmtilegan hátt,“ sagði Kevin Martin, doktorsnemi við Háskóla Íslands daginn áður en vakin var athygli á þessari nýju nálgun í fornleifafræði. Kevin leiddi rannsóknina á flakinu en hún tengist einmitt doktorsverkefninu hans þar sem einokunarverslun Dana er í fókus.  

Það má segja að Kevin hafi algerlega hitt naglann á höfðuðið því þegar þetta er skrifað, þann 19. október 2019, hafa um sautján þúsund manns horft á sýndarveruleikann á YouTube og „kafað“ umhverfis flakið.

Að Kevins sögn er upplifunin í þrívídd og í 360 gráðu viðmóti en með lausninni er reynt að birta flakið sjálft eins og það leit út augnabliki eftir að það sökk.  Það er rösklega 33 metrar að lengd og er talið vera hollenskt af tegund sem var afar algeng á 17. öld.  Siglingar þessara skipa hingað reyndust Íslendingum mikið fagnaðarefni þar sem skipverjar komu færandi hendi með varning sem ekki var fáanlegur hér en verslunareinokun danskra kaupmanna var á Íslandi á 17. öld.  Árið 1659 gerðu Svíar óvænt árás á Kaupmannahöfn sem olli því að dönsk kaupför gátu ekki siglt til Íslands. „Hollendingar gripu því tækifærið og sigldu hingað á þessum skipum sem voru vel vopnuð undir fölsku dönsku flaggi til að eiga kærkomin viðskipti við Íslendinga. Í skiptum fyrir fisk, ullarvörur og lýsi fengu Frónbúar m.a. korn, timbur og postulín,“ segir Kevin.  

Að sögn hans hreppti Mjaltastúlkan mikið óveður þann 16. október árið 1659 og sökk í höfninni við Flatey með þeim afleiðingum að einn skipverjanna drukknaði, altjón varð á farmi og eftirlifandi skipbrotsmenn höfðust við í Hafnarey þar til veðrinu slotaði.

Leiðbeinandi Kevins í þessu áhugaverða verkefni er Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. 

Miðlun um víða veröld

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast nánar eðli rannsóknarinnar og hollenska kaupskipinu er bent á að sýning er nú í gangi sem er helguð Mjaltastúlkunni í Sjóminjasafninu á Granda sem Kevin Martin van í samvinnu við Sjóminjasafnið.  Hér má svo að lokum sjá tengla á fjölbreytta umfjöllun um rannsóknina og þrívíddarmiðlunina í fjölmiðlum víða um heim síðustu dagana. 
 

BBC
Fréttablaðið
Smithsonian Magazine
The Senior Australia 
Skynews Australia
The Journal
Live Science 
Fox News 
Dailymail 
  
Vídindagrein um rannsóknina og þessa frumlegu miðlun birtist líka í síðustu viku í tímaritinu IEEE Proceedings.

Mjaltastúlkan