Misræmi í vistkerfi veldur álagi á farfugla | Háskóli Íslands Skip to main content
30. nóvember 2020

Misræmi í vistkerfi veldur álagi á farfugla

Misræmi í vistkerfi veldur álagi á farfugla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þótt vetur sé nú genginn í garð má enn sjá nokkrar tegundir farfugla í fjörum landsins, m.a. tildrur, sendlinga, heiðlóur og tjalda en þeir síðastnefndu halda reyndar hér til allt árið en hluti af stofninum telst til staðfugla. 

Gögn um tjalda leika einmitt ákveðið hlutverk í nýrri fjölþjóðlegri rannsókn vísindamanna sem sýna fram á miklar breytingar á hreyfingum og farmynstri dýra á norðurslóðum í takt við loftslagsbreytingar. 

„Farfuglum gengur ekki sérstaklega vel um þessar mundir. Þetta á ekki síst við um strandfugla sem verpa á norðurslóðum. Við sjáum að árstíðabundið hámark í framboði á æti á norðurslóðum, ætið sem farfuglarnir nýta sjálfir og gefa ungunum sínum svo þeir dafni, er að færast framar og framar samfara hlýnun.“  

Þetta segir Portúgalinn Jose Alves, sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann er einn höfunda greinar sem birtist fyrir stuttu í hinu heimþekkta vísindatímariti Science og byggir á framangreindri rannsókn.  

Jose kemur hér á hverju sumri en hann hefur m.a. stundað rannsóknir á tjaldi og jaðrakan en síðartaldi fuglinn verpir æ fyrr á vorin vegna sviptinga í loftslagi. Það sýna rannsóknir vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sem Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður rannsóknasetursins þar, hefur leitt. 

Sjá nýja vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

„Þetta var einu sinni í takti en núna er komið upp ákveðið ósamræmi. Við köllum þetta misræmi í vistkerfinu. Þetta er ein af ástæðum þess að strandfuglum vegnar ekki nógu vel. Farfuglarnir þurfa að fljúga á varpstöðvarnar á norðurslóðum og sumir þeirra ná því ekki nógu tímanlega til að aðlaga varpið að þessu snemmbæra framboði á æti,“ segir Jose Alves, gestavísindamaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. 

Krían í kreppu – og strandfuglar í basli

Freydís Vigfúsdóttir er annar vísindamaður við Háskóla Íslands sem einnig beinir sjónum að breytingum á lífríki í tengslum við sviptingar í loftslagi. 

„Ísland og Norður-Atlantshafið er ótrúlega ríkt hafsvæði sem býður upp á góð skilyrði fyrir ýmsar lífverur til þess að ala upp ungviði. Hafið í kringum Ísland  framleiðir gríðarlega mikinn lífmassa sem skapar skilyrði fyrir milljónir fugla, m.a. sjófugla auk hvala og sela, til að koma upp afkvæmum sínum hér. Farfuglarnir koma hingað vegna þess að aðstæður til varps  og mikið fæðuframboð  í sjó eru til þess fallin að halda uppi þessu lífkerfi,“ segir Freydís en hún hefur beint sjónum sínum að kríunni mestan hluta síns rannsóknarferils. Krían hefur átt í basli með að koma upp ungum á nokkrum stórum og þekktum varpstöðvum hérlendis. Freydís segir það öllu skipta að þegar ungarnir klekist úr eggi sé eitthvert æti til staðar. 

„Ísland fóstrar ótrúlega mikinn fjölda af kríum og um þrjátíu milljónir sjófugla í heildina. Þannig að þetta eru margir ungar sem þarf að fæða yfir sumartímann. Þessir sjófuglar eru að segja okkur að það séu breytingar í hinu hafræna umhverfi sem við þurfum að fylgjast með. Það hefur verið kreppa hjá kríunni í svolítinn tíma og sjófuglarnir geta virkað eins og fínir ávitar á umhverfi sjávarins og heilbrigði þess.“ Þannig endurspeglar brestur í varpi kríunnar breytingar í hafinu við landið. 

Jose Alves tekur í svipaðan streng og segir að myndast hafi ósamræmi milli þess hvenær fæðið er til staðar í lífríkinu og þess hvenær fuglarnir þurfi á því að halda. 

„Þetta var einu sinni í takti en núna er komið upp ákveðið ósamræmi. Við köllum þetta misræmi í vistkerfinu. Þetta er ein af ástæðum þess að strandfuglum vegnar ekki nógu vel. Farfuglarnir þurfa að fljúga á varpstöðvarnar á norðurslóðum og sumir þeirra ná því ekki nógu tímanlega til að aðlaga varpið að þessu snemmbæra framboði á æti.“ 

"Freydís Vigfúsdóttir og kríur"