Skip to main content
3. apríl 2021

Mikilvægt að rannsaka konur sem ruddu brautina

Mikilvægt að rannsaka konur sem ruddu brautina - á vefsíðu Háskóla Íslands

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, hefur gluggana opna inn í fortíðina þessa dagana þar sem hún skyggnist inn í líf konu sem varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka háskólaprófi, ekki bara í einni grein, heldur tveimur. 

Konan sem Arnfríður beinir sjónum að hét Steinunn Jóhannesdóttir, sem síðar tók upp nafnið Hayes.  Hún lauk bæði háskólanámi í guðfræði og læknisfræði fyrir nálega 120 árum. Undir lok 19. aldar flutti Steinunn til Bandaríkjanna og stundaði þar háskólanám. Að því loknu flutti hún ásamt eiginmanni sínum til Kína og starfaði þar sem trúboðslæknir í fjóra áratugi.   

„Kveikjan að þessari rannsókn var áhugi á að leita að týndu konunum í íslenskri sögu, sérstaklega þeim konum sem tengjast sögu kirkju og kristni í íslensku samhengi,“ segir Arnfríður. 

„Hingað til hefur lítið sem ekkert verið skrifað um þessa merku konu sem þýðir að hún hefur ekki fengið þann sess í íslenskri kirkju-, mennta-, eða kvennasögu sem hún verðskuldar,“ segir Arnfríður sem ætlar sér svo sannarlega að breyta því með þessari rannsókn sinni.  

„Mér finnst þetta mikilvægt verkefni en jafnframt mjög spennandi að komast að því hver þessi merkiskona var og tímabært að kynna hana í íslensku og erlendu samhengi. Það er afar mikilvægt að við gerum hvað við getum til þess að segja sögu þeirra kvenna sem hafa rutt brautina fyrir okkur sem síðar höfum fetað í þeirra fótspor.“ 

Það fer vel á því að Arnfríður beini sjónum að kvenfrumkvöðli í þessu rannsóknaverkefni því hún hefur lengi horft á samspil kristinnar trúar og kvennabaráttu í rannsóknum sínum og ítrekað vakið athygli fyrir femíníska sýn á guðfræðina. 

„Femíníska sjónarhornið kemur fram í þeirri áherslu sem ég legg á áhrif einstakra kenninga guðfræðinnar á líf kvenna, en líka áhrif kvenna á þróun kristinnar trúarhefðar.“ 

Endurskoðun sögunnar

Þrátt fyrir að COVID-19 hafi hindrað Arnfríði í að halda á slóðir Steinunnar í Bandaríkjunum, til að sanka að sér heimildum eins og hún ætlaði sér, hefur rannsókninni miðað vel áfram. 

„Ég var svo heppin að geta ráðið tvo aðstoðarmenn sem vörðu síðasta sumri í að leita að heimildum um Steinunni og skrá þær. Ég er afar spennt að fá tíma til að vinna úr þessum gögnum.“

Allar rannsóknir eru merkilegar og gildi þeirra er oft í mörgum víddum sem ekki þurfa alltaf að blasa við strax. Arnfríður segir að innan sinnar fræðigreinar skipti rannsóknir mjög miklu máli, því að hlutverk guðfræðingsins sé að túlka boðskap úr fortíðinni inn í nútímann, í ljósi nýrra rannsókna.

„Gildi þessarar rannsóknar liggur fyrst og fremst í endurskoðun sögunnar, þar á meðal kirkjusögunnar en líka guðfræðilegrar hugmyndasögu, og þeirrar karllægu áherslu sem þar hefur verið ríkjandi um aldir,“ segir Arnfríður.  

Arnfríður Guðmundsdóttir