Skip to main content
30. mars 2020

Mikilvægt að hreyfa sig og njóta útiveru

Núna þegar margir vinna heima og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar, íþróttahús og sundlaugar sömuleiðis, er mikilvægt að  huga áfram að hreyfingu og leita nýrra leiða. Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands, segir mögulegt að hreyfa sig heima við með ýmsum einföldum aðferðum.  Ein leið sé að ganga upp og niður stiga, sippa, taka armbeygjur og planka. Gamla leiðin, sem margir þekkja úr morgunleikfimi allra landsmanna, sé að ganga og hlaupa á staðnum og ekki saki að slá taktfast út í loftið. Auðvelt sé auk þess að finna allskyns æfingar á netinu sem stunda megi heima við.

Enn betra sé þó að fara út undir bert loft, jafnvel þótt ekki viðri vel til útivistar. Erlingur segir mikilvægt að fylgja reglum almannavarna og sóttvarnalæknis í allri útivist sem þýði að tveir metrar þurfi alltaf að vera á milli manna.

„Mjög mikilvægt er að við förum samt út og hreyfum okkur. Það er manneskjum eðlislægt að vera úti og njóta útivistar, anda að sér fersku og súrefnisríku lofti, það hreinsar hugann,“ segir Erlingur og hann veit alveg hvað hann syngur. Hann hefur stundað íhlutunarrannsóknir á Íslendingum í áraraðir, nánast allan sinn vísindaferil. Markmið þessara íhlutunarrannsókna hefur verið að sannreyna hvort unnt sé að auka hreyfingu og breyta mataræði fólks til hins betra. Niðurstöðurnar sýna ótvírætt að hægt er að hafa marktæk áhrif á hreyfingu, mataræði og lifnaðarhætti fólks á öllum aldri og bæta þannig heilsu og líðan fólks.

„Að hreyfa sig úti hefur það umfram hreyfingu inni að þegar maður fer t.d. í Elliðaárdalinn, í fjörurnar í borgarlandinu, upp í Heiðmörk eða í Öskjuhlíðina þá er líkaminn og heilinn að eiga við umhverfi sem er meira krefjandi en það sem er venjulega tilfellið innan dyra.“

Erlingur segir að það eitt að ganga eða hlaupa úti, þar sem undirlag er ekki alveg slétt, krefjist meiri athygli hjá okkur en annars því við þurfum að hugsa hvernig og hvar við setjum niður fótinn þegar við göngum eða hlaupum. „Yfirborðið á skógar- eða malarstígum eða í fjörunni er yfirleitt meiri ögrun fyrir liðina og stoðkerfið okkar en t.d. að hlaupa á bretti eða að ganga eða hlaupa á hörðu malbikinu.“ 

Erlingur segir að rannsóknir sýni að þeir sem ganga eða hlaupa reglulega á ójöfnu undirlagi séu minna hrjáðir af liða- og stoðkerfisvandamálum. 

Þessu til viðbótar er andleg hressing í því að vera úti og njóta útsýnis og sólarglennu eða bara að fá suddann eða haglélið í andlitið. Núna þegar vorið er að vakna þá gleður líka margt nýtt augað á hverjum degi. Plöntur skjóta nú upp kolli og farfuglarnir eru t.d. að hópast heim og þá má nú sjá í sumum fjörum í borgarlandinu. 

Þótt einstaklingar í sóttkví megi ekki fara út af heimilinu eins og nú háttar,  nema af brýnni nauðsyn, þá geta þeir eftir sem áður farið í gönguferðir en þurfa að halda sig í a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum. Þessir einstaklingar eiga þannig tök á að hreyfa sig úti.

Hreyfing bætir andlega líðan

Nú þegar margir eru kvíðnir er mikilvægt að leita eftir stuðningi og styðja um leið aðra. Það er mikilvægt að muna að andleg líðan er undirstaða þess að við komumst í gegnum þá erfiðleika sem tengjast COVID-19.

Erlingur segir að fjölmargar vísindarannsóknar hafi verið gerðar af vísindamönnum Háskóla Íslands sem sýni að hreyfing hafi jákvæð áhrif á andlega líðan allra. „Niðurstöður þessara rannsókna gefa sterkar vísbendingar um að þeir einstaklingar sem stunda reglulega hreyfingu séu minna þjakaðir af þunglyndi, hafi meira sjálfsálit og séu með sterkari líkamsímynd.“ 

Erlingur segir mjög mikilvægt að fólk sem vinni heima sitji ekki stöðugt við tölvurnar heldur standi upp og liðki sig reglulega og gæti þess að nota hluta úr deginum til að fara út ef það er heimilt í samkomubanni. „Kyrrseta er mjög þekktur áhættuþáttur, sem er nátengdur andlegri líðan fólks og líkamlegri heilsu. Við þurfum öll að huga að því hversu mikinn tíma við notum í tölvum, spjaldtölvum og farsímum. Mikil kyrrseta og skjátími hefur mjög sterk tengsl við aukna andlega vanlíðan.“

„Að hreyfa sig úti hefur það umfram hreyfingu inni að þegar maður fer t.d. í Elliðaárdalinn, í fjörurnar í borgarlandinu, upp í Heiðmörk eða í Öskjuhlíðina þá er líkaminn og heilinn að eiga við umhverfi sem er meira krefjandi en það sem er venjulega tilfellið innan dyra,“ bendir Erlingur Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði, á.

Hreyfing bætir flest

Erlingur Jóhannsson er fyrsti prófessorinn í íþróttafræði við íslenskan háskóla og hefur vakið athygli fyrir rannsóknir sínar langt út fyrir landsteina. Rannsóknir hans á ungmennum og börnum hafa til dæmis sýnt að þau börn sem stunda reglulega hreyfingu standa sig betur í námi og fá hærri einkunnir. 

„Langtímarannsóknir okkar hafa sýnt að þau ungmenni sem stunda hreyfingu reglulega frá unga aldri eru líklegri til halda kjörþyngd, stunda hreyfingu alltaf, líður betur andlega, borða hollari mat og sofa yfirleitt betur seinna í lífinu. Þannig að jákvæð og meðvituð heilsuhegðun er lykillinn að því að forðast heilsufarslega áhættuþætti seinna meir í lífinu.“

Erlingur segir að rannsóknir á leikskólabörnum styðji þetta því þær sýni að þau börn sem eru reglulega úti að leika, jafnvel daglega,  séu betur á sig komin en þau sem ekki eru reglulega úti. „Þau sem fara út búa betur að þessum eiginleikum seinna í lífinu.“ 

Erlingur segir að svefninn sé einnig gríðarlega mikilvægur og nú um stundir sé einstaklega áríðandi að fá nægan svefn. „Rannsóknir okkar hafa t.d. sýnt að þau ungmenni sem sofa lítið eru í meiri hættu að eiga í andlegum hrakningum.“ 

Á enn Íslandsmet í 800 metra hlaupi

Erlingur Jóhannsson er fæddur árið 1961 en hann lauk meistaraprófi í íþrótta- og heilsufræðum frá Íþróttaháskólanum í Osló og doktorsprófi frá sama skóla. Erlingur starfaði í þrjú ár sem nýdoktor við læknadeild Háskólans í Osló áður en hann hóf störf við kennslu og rannsóknir við Kennaraháskólann og seinna við Háskóla Íslands. Erlingur var gríðarlegur afreksmaður í íþróttum á níunda áratugi síðustu aldar og hafa hlauparar landsins ekki enn náð að jafna Íslandsmetið hans í 800 metra hlaupi en það var sett fyrir 33 árum, árið 1987.

Erlingur Jóhannsson