Skip to main content
20. janúar 2020

Mikill áhugi og kapp meðal nemenda í Kveikju 

Nemendur og fólk úr atvinnulífi fundar

Fyrsta þverfræðilega námskeiðið í samfélagslegri nýsköpun, Kveikja: Þín þekking í þágu heimsins, fór fram á Litla torgi Háskólatorgs síðastliðinn föstudag. Á námskeiðinu fengu nemendur, sem flestir eru á þriðja ári í Háskóla Íslands, tækifæri til þess að kynnast betur eigin styrkleikum, efla tengslanetið og öðlast aukna færni í að nýta eigin þekkingu, reynslu og hugmyndir í þágu samfélagsins. Námskeiðið var lokahnykkur í vel heppnuðum Atvinnudögum sem fóru fram 13-17. janúar í Háskóla Íslands.

Andri Snær Magnason rithöfundur setti sá um að setja tóninn fyrir daginn og þau fjölbreyttu og krefjandi úrlausnarefni sem biðu nemendanna. Bryndís Jóna Jónsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands, varpaði hulunni af styrkleikum þeirra og Andrés Jónsson, stjórnendaráðgjafi og eigandi Góðra samskipta, fræddi nemendur um mikilvægi tengslamyndunar fyrir árangur, hvort sem er í lífi eða starfi.

Í samstarfi við Samtök atvinnulífsins var hópi stjórnenda fyrirtækja og samtaka enn fremur boðið til stefnumóts við stúdenta. Samtal stúdenta og stjórnenda var í senn fræðandi og líflegt fyrir báða hópa, stúdentar sögðu frá þeirra helstu hugðarefnum og verkefnum í námi og stjórnendur miðluðu af reynslu sinni. 

Gestir úr atvinnulífi
●    Andrea Róberts, framkvæmdastjóri FKA
●    Bjarni Már Gylfason, samskiptastjóri Rio Tinto – Isal,
●    Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim
●    Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins
●    Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð
●    Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL
●    Lilja Bjarnadóttir, sáttamiðlari og lögfræðingur hjá Sáttaleiðinni ehf.
●    Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts
●    Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti
●    Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður starfsmannasviðs Landsvirkjunar

Nemendur fengu enn fremur það verkefni að koma fram með lausn við einu af undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á aðeins þremur tímum. Vinnan fór fram þvert á fræðasvið og fengu þátttakendur afar góða leiðsögn frá öflugum lóðsum úr röðum kennara og annarra starfsmanna Háskóla Íslands.

Viðburðurinn var í alla staði afar vel heppnaður og nemendur öðluðust dýrmæta reynslu sem á væntanlega eftir að koma þeim vel þegar haldið verður út í lífið að loknu námi.

Fleiri myndir frá námskeiðinu
 

nemendur á Háskólatorgi