Skip to main content
28. maí 2020

Mikill áhugi fyrir sumarnámi í Háskóla Íslands

""

Um þúsund manns hafa skráð sig í þau fjölbreyttu námskeið sem Háskóli Íslands býður upp á í sumar í samstarfi við stjórnvöld.

Valið stendur á milli hartnær 100 námskeiða þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem um er að ræða núverandi nemendur í grunn- og framhaldsnámi, nýnema sem hyggjast hefja nám á næsta skólaári, aðra sem ætla að stunda nám yfir sumarið eða vilja efla sig í starfi. Námskeiðin eru þannig ýmist metin til eininga innan skólans eða almenn námskeið án eininga. Þá verður einnig boðið upp á netnámskeið í samvinnu við erlenda samstarfsháskóla.

Skráningar í námskeið eru nú þegar orðnar hátt í 2.000 á þeirri viku sem liðin er síðan opnað var fyrir skráningu en á bak við þær eru um þúsund manns. „Skráningin fyrstu dagana lofar mjög góðu og bendir allt til þess að mikill áhugi sé til staðar í samfélaginu á sumarnámi við Háskóla Íslands. Við gerum ráð fyrir að aðsókn muni aukast jafnt og þétt á næstu dögum eftir því sem við kynnum námið betur. Framboðið er mikið og við erum m.a. með athyglisverð netnámskeið í samtarfi við erlenda samstarfsháskóla í edX-samstarfsnetinu,“ segir Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands.

Fyrstu sumarnámskeiðin hefjast 2. júní og þeim síðustu lýkur 15. ágúst. „Við renndum að vissu leyti blint í sjóinn með sumarskólann og gátum ekki alveg séð fyrir okkur hver eftirspurnin yrði við þessar óvenjulegu aðstæður. Þessi mikla eftirspurn strax við opnun skráningar er ánægjuefni. Námið í sumarskóla Háskóla Íslands er fjölbreytt og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Róbert.

Á sérstakri vefsíðu sem helguð er sumarnáminu má kynna sér námsframboðið en þar kemur m.a. fram að boðið verður upp á ýmis undirbúningsnámskeið og aðfaranámskeið, m.a. í raungreinum og íslensku, námskeið í akademískum vinnubrögðum, námskeið í íslensku sem öðru máli, valnámskeið á háskólastigi á öllum fræðasviðum, námskeið um nýsköpun og samfélagsþátttöku, námskeið í tæknifræði og ýmislegt fleira.

Vakin er athygli á því að nemendur sem skráðir voru til náms háskólaárið 2019-2020 geta tekið sumarnámið án þess að greiða sérstakt skrásetningargjald enda tilheyrir sumarmisserið kennsluárinu 2019-2020.

Nemendur á háskólasvæðinu