Skip to main content
5. mars 2019

Mikil aðsókn í eldfjallanámskeið edX

freysteinn sigmundsson og nemendur

Hátt í eitt þúsund þátttakendur eru nú skráðir í nýtt edX-námskeið um eldfjallavöktun og kvikuhreyfingar sem Háskóli Íslands stendur fyrir. edX er alþjóðlegt og leiðandi net háskóla á sviði opinna vefnámskeiða en námskeiðið nýja hóf göngu sína í vikunni. Enn getur nemendum fjölgað því unnt er að skrá sig til þátttöku þótt námskeiðið sé hafið. Áttatíu skráðu sig í gær og eru miklar líkur á að fjöldinn fari yfir þúsund nemendur áður en vikan er liðin.

Námskeiðið nýja er annað í röðinni sem Háskóli Íslands stendur fyrir á þessum vettvangi en það fjallar um aðferðir til að vakta eldfjöll og hreyfingar bergkviku í rótum eldstöðva. Jarðvísindamaðurinn Freysteinn Sigmundsson stýrir námskeiðinu en hann segir að áherslan sé að komast nærri því sem gerist í aðdraganda eldgosa. „Hver eru merki kvikusöfnunar fyrir eldgos, hvaða mælingar geta greint slíka kvikusöfnun og hvernig getum við notað gögn frá mælitækjum til að segja okkur hvenær næstu eldgos verða?“ segir Freysteinn sem er jarðeðlisfræðingur við Norræna eldfjallasetrið á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að vakta eldfjöll en þau geta valdið eigna- og manntjóni og því áríðandi að geta varað við hættu á gosi með nægjanlegum fyrirvara. Það fer afar vel á því að Háskólinn bjóði námskeið á þessu sviði enda er Ísland lifandi rannsóknastofa í þessari vísindagrein auk þess sem íslenskir jarðvísindamenn hafa raðað sér með þeim bestu í heimunum á undanförnum árum. 

Þátttakendur koma frá meira en sextíu þjóðlöndum
Háskóli Íslands varð hluti af edX árið 2017 en netið er stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri alþjóðlega og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar í tækni og samfélagi. Í edX námskeiðum Háskóla Íslands og annarra í netinu er mikil áhersla lögð á myndmál og markvissar skýringar þar sem tíminn er naumur til að koma miklum upplýsingum á framfæri. Þetta reynir þannig mjög á kennara og kallar á nýja tækni við miðlun. 

Þátttakendur í námskeiðinu koma frá meira en sextíu þjóðlöndum en heildarfjöldi þeirra sem sótt hafa edX-námskeið Háskóla Íslands eru um sjö þúsund og koma frá á annað hundrað þjóðlöndum. Fyrsta alþjóðlega netnámskeið Háskólans var í norrænum miðaldafræðum og voru Íslendingasögurnar þar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsandi viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi. Þessi tvö námskeið, sem Háskólinn hefur gert fyrir edX, eru þannig þau langfjölmennustu sem skólinn hefur staðið fyrir. 

Freysteinn segir að allir séu velkomnir í eldfjallanámskeiðið sem hafi áhuga á að skilja betur hegðun eldfjalla. Hér er hægt að skrá sig og er þátttaka ókeypis. Skráning fer fram á vef edX

Þessu til viðbótar hefur Háskóli Íslands einnig gert minna edX-námskeið um sauðkindina okkar íslensku og hefst það í næstu viku.
 

Eldgosið í Eyjafjallajökli