Skip to main content
8. júní 2018

Metþátttaka í Háskóla unga fólksins

""

Um 370 nemendur á aldrinum 12-16 ára setjast á skólabekk í Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands til að kynnast undrum vísindanna dagana 11.-15. júní. Um metfjölda nemenda er að ræða. Framboð námskeiða hefur heldur aldrei verið meira í skólanum en nemendur gátu valið úr 58 námskeiðum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Frumkvöðlafræði, hjúkrunarfræði, kvikmyndafræði , ritlist – ritsmiðja, sjálfsmyndarýni og sjúkraþjálfun eru meðal nýrra námskeiða sem í boði verða.

Háskóli unga fólksins er nú starfræktur í fimmtánda sinn í Háskóla Íslands en hann hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar undanfarin ár. Nemendur í skólanum kynna sér fjölmargar fræðigreinar sem kenndar eru við Háskóla Íslands og skemmta sér þess á milli í skipulögðum leikjum á túninu fyrir framan Aðalbyggingu. Dagana sem skólinn stendur yfir lífga ungu nemendurnir sannarlega upp á háskólasvæðið. 

Fyrirkomulag kennslunnar í ár verður með þeim hætti að nemendur sækja fjögur tveggja daga námskeið, einn þemadag og þrjú örnámskeið en þeir bjuggu til sína eigin stundatöflu í umsóknarferlinu. Nemendur þurftu að vanda valið enda mjög mörg námskeið í boði, til að mynda lífsleikni og listir, franska, stærðfræði, samskipti dýra, íþrótta- og heilsufræði, blaða- og fréttamennska, endurlífgun og fleira. 

Sérstakur þemadagur verður í Háskóla unga fólksins miðvikudaginn 13. júní en þá verja nemendur heilum degi í tilteknum greinum og fara vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og jafnvel víðar. Þetta árið má finna nýjungar eins og nýsköpun og viðskiptaþróun, tölvuleikjaforritun, sálfræðiþemadag og tungumálaþemadag þar sem ferðast verður um heim tungumálanna með sérfræðingum Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands í hinni nýju og glæsilegu byggingu Veröld – húsi Vigdísar. Af öðrum námskeiðum á þemadegi má nefna dýralíffræði, að stjórna Íslandi, forritun, jarðskjálfta, lífsleikni – leiklist – gleði og réttur er settur þar sem farið verður í heimsókn í Héraðsdóm Reykjavíkur.

Hátt í hundrað nemendur og kennarar í Háskóla Íslands koma að kennslu í Háskóla unga fólksins.

Auk útileikja í hádeginu verður fleira skemmtilegt gert milli kennslustunda. Glæsileg grillveisla verður haldin í einu hádegishléinu og í lok skólans, föstudaginn 15. júní, efnt til glæsilegrar lokahátíðar og vísindagleði. Á lokahátíðinni fá nemendur afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í skólanum og þangað er foreldrum, forráðamönnum og systkinum einnig boðið. Eftir lokahátíðina verður kraumandi vísindagleði þar sem meðal annars er hægt að prófa stökkkraftinn í stökkmælingartæki, sjá efnafræðitilraunir og dularfullar efnablöndur Sprengju-Kötu, skoða myndir úr námskeiði í sjálfsmyndarýni og kanna stjörnur og sólir með Sævari Helga. Þá má spreyta sig í endurlífgun á dúkkum, skoða muni tengda fornleifafræði og kynnast undraheimum japanskrar menningar og máls. Vísindasmiðjan sívinsæla verður einnig opin en þar eru vísindin dregin fram með gagnvirkum og lifandi hætti.

frá háskóla unga fólksins
frá háskóla unga fólksins