Metfjöldi þátttakenda í námskeiði tengdu Arctic Circle | Háskóli Íslands Skip to main content
3. október 2019

Metfjöldi þátttakenda í námskeiði tengdu Arctic Circle

Nærri hundrað nemendur eru skráðir í námskeið í Háskóla Íslands sem tengist norðurslóðaráðstefnunni Arctic Circle sem fram fer í Hörpu dagana 10.-12. október. Þeir koma af öllum fimm fræðasviðum skólans og hafa aldrei  verið fleiri. 

Ráðstefnan hefur verið haldin allt frá árinu 2013 en upphafsmaður hennar er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Um er að ræða eina stærsta ráðstefnu heims á sviði norðurskautsmála og hana sækja yfir 2.000 manns frá yfir 50 ríkjum, bæði erlendir og innlendir stjórnmálamenn, fulltrúar félagasamtaka, fyrirtækja, háskóla, hugveita, umhverfisamtaka og frumbyggja á norðurslóðum, svo dæmi séu nefnd. Öll eiga þau sameiginlegt að vilja stuðla að samtali og samstarfi um framtíð og þróun norðurskautsins, en talið er að mikilvægi þeirra muni aukast á næstu áratugum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. 

Starfsfólk Háskóla Íslands hefur frá upphafi tekið virkan þátt í ráðstefnunni, m.a. með því að skipuleggja málstofur með samstarfsaðilum um afmörkuð málefni norðurskautsins og flytja erindi um rannsóknir sínar sem tengjast svæðinu, en óhætt er að segja að þær spanni fjölbreytt fræðasvið. 

„Það hefur verið afskaplega gaman að taka þátt í Arctic Circle með nemendum enda er þetta fyrsta stóra ráðstefnan sem mörg þeirra fara á og þetta ný og spennandi upplifun fyrir þau. Nemendum er afskaplega hollt að stíga út fyrir veggi háskólans og kynnast viðhorfum ráðamanna og atvinnulífsins – en það er ekki síður hollt fyrir okkur kennarana,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor og umsjónarkennari námskeiðsins.

Þá hafa nemendur skólans einnig verið áberandi en stór hluti þeirra sækir ráðstefnuna í tengslum við námskeið sem boðið hefur verið upp á í skólanum undanfarin fimm ár. Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í málefni norðurslóða út frá sínu fræðasviði, að nemendur öðlist þekkingu á samspili svæðisbundinna stjórna og ríkisstjórna, frjálsra félagasamtaka og almennings auk mikilvægi efnahagslegra og samfélagslegra þátta í málefnum norðurslóða. Einnig eiga nemendur að loknu námskeiðinu að geta metið hentugleika mismunandi aðferða við greiningu og flókin vísindaleg viðfangsefni fyrir rannsóknir og ákvarðanatöku tengdri málefnum norðurslóða. 

Níutíu og tveir nemendur úr nærri 30 námsleiðum eru skráðir í námskeiðið að þessu sinni og er það metfjöldi, sem fyrr segir. Alls eru nemendurnir frá 27 löndum. Fjölbreytt viðfangsefni blasa við á norðurslóðum, allt frá bráðnun íss og byggðaþróun til orkumála, innviða, auðlinda og sjálfbærrar þróunar. Því er kennarahópurinn í námskeiðinu þverfræðilegur, en alls koma 10 kennarar frá þremur af fimm fræðasviðum Háskólans að því. 

Brynhildur Davíðsdóttir er umsjónarkennari námskeiðsins og hefur leitt það frá upphafi. „Það hefur verið afskaplega gaman að taka þátt í Arctic Circle með nemendum enda er þetta fyrsta stóra ráðstefnan sem mörg þeirra fara á og þetta ný og spennandi upplifun fyrir þau. Nemendum er afskaplega hollt að stíga út fyrir veggi háskólans og kynnast viðhorfum ráðamanna og atvinnulífsins – en það er ekki síður hollt fyrir okkur kennarana,“ segir hún.

frá Háskólatorgi