Metfjöldi heimsókna á Vísindavefinn í fyrra | Háskóli Íslands Skip to main content

Metfjöldi heimsókna á Vísindavefinn í fyrra

11. janúar 2018
""

Vísindavefur Háskóla Íslands fékk hátt í 740 þúsund heimsóknir á árinu 2017 og hafa þær aldrei verið fleiri. Vefurinn var enn fremur í hópi tíu fjölsóttustu vefja á Íslandi á árinu samkvæmt samræmdri mælingu fyrirtækisins Modernus.

Í nýrri samantekt á Vísindavefnum fyrir árið 2017 kemur fram að vefurinn birti alls 334 svör árið 2017. Auk þess var fjölmörgum fyrirspurnum svarað með því að vísa lesendum á efni sem til er og sumum spurningum var svarað beint, bæði með tölvupósti og símtölum.

Ekki er óalgengt að á hverjum degi séu rúmlega 3.000 svör opnuð á Vísindavefnum og í einum mánuði getur talan nálgast 11.000 sem fer nærri heildarfjölda svara á Vísindavefnum frá upphafi.

Heildarfjöldi gesta árið 2017 var samkvæmt talningu Modernus 738.093 og hafði gestum fjölgað um 7% frá árinu 2016, eða rétt tæp 50.000. Til samanburðar voru heimsóknir á árinu 2015 um 656.000. Sama er að segja um bæði innlit og flettingar árið 2017. Innlit jukust um rétt rúmlega 245.000 og flettingar um rúmlega 263.000.

Ef skoðaðar eru sérstaklega tölur yfir meðalfjölda gesta í hverjum mánuði, en þar er beitt annarri aðferð við talningu en þegar árið í heild sinni er talið, þá heimsóttu að meðaltali 103.000 gestir Vísindavefinn í hverjum mánuði árið 2017 og hefur sú tala aukist um heil 10% frá árinu 2016. Flestir gestir komu inn á Vísindavefinn í nóvember árið 2017, alls 124.055.

Þá sýnir samræmd vefmæling Modernus að Vísindavefurinn var í 9. sæti yfir vinsælustu vefi landsins á síðasta ári.

Á Vísindavefnum má finna lista yfir vinsælustu svör ársins 2017 í hverjum mánuði en þar koma m.a. við sögu lygar á alþingi, hitakrem og rúllur og flugeldamengun og bjórbann. 
 

forsíða vísindavefsins
graf með aðsókn á Vísindavefinn

Netspjall