Skip to main content
29. september 2020

Metfjöldi erinda á Menntakviku 

""

Áhrif COVID-19-faraldursins á ólík skólastig og frístundastarf, hamingja íslenskra feðra, krabbameinsskimanir og öryggi, áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs, þroskaþjálfafræði á krossgötum, matvendni barna og bragðlaukaþjálfun og #MeToo í sviðslistum og íþróttum er aðeins brot af því sem í boði verður á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs, sem fram fer á netinu dagana 1. og 2. október. Erindi á ráðstefnunni hafa aldrei verið fleiri.

Menntakvika er nú haldin í 24. sinn en hún hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem uppskeruhátíð menntavísinda  í landinu þar sem varpað er ljósi á nýjustu rannsóknir og þróunarverkefni í skóla-, frístunda- og uppeldsstarfi. Þátttakendur koma bæði úr hópi fræðimanna og nemenda Háskóla Íslands og annarra háskóla og fagfólks sem vinnur að mennta- og uppeldismálum víða í samfélaginu.

Vegna kórónuveirufaraldursins fer ráðstefnan að öllu leyti fram á netinu og verður hægt að nálgast upptökur á vef ráðstefnunnar. Áhorfendur geta tekið þátt í umræðum um efni í málstofum í gegnum ZOOM-fjarfundabúnaðinn.

Ráðstefnan er sú umfangsmesta frá upphafi því alls eru í boði 340 erindi í 87 rafrænum málstofum. Líkt og fyrri ár snerta þær allrar hliðar menntavísindanna, þ.á m. innflytjendur og menntamál, menntun, heilsu og vellíðan barna, sköpunar- og tæknismiðjur í skólastarfi, hönnun og nýsköpun og áhrifamátt list- og verkgreina. 

Aðalfyrirlestur Menntakviku flytur Guðrún V. Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, föstudaginn 2. október kl. 12.30 í beinu streymi. Í erindinu, sem haldið er á Alþjóðlegum degi þroskaþjálfa, hyggst Guðrún m.a. beina sjónum sínum að gömlum og nýjum áskorunum í námi þroskaþjálfa, hvaða stefnur og straumar í málefnum fatlaðs fólks hafa verið stærstu áhrifavaldarnir innan fagsins og með hvaða hætti áhrif þroskaþjálfafræða birtast á Menntavísindasviði og í samfélagi án aðgreiningar.

Dagskrá ráðstefnunnar í heild er aðgengileg á vef Menntakviku en þar er m.a. hægt að kynna sér efni einstakra málstofa.

Logo Menntakviku