Menntun í sinni litríkustu mynd | Háskóli Íslands Skip to main content
12. júní 2019

Menntun í sinni litríkustu mynd

Háskóli unga fólksins var settur í 16. sinn í gær og stendur til 14. júní næstkomandi. Skólinn hefur notið mikilla vinsælda meðal unglinga en uppselt er í skólann líkt og undanfarin ár. 370 nemendur á aldrinum 12-16 ára eru nú á háskólasvæðinu og sækja fjölbreytt námskeið sem tengjast öllum fræðasviðum Háskólans.

Fyrirkomulag kennslunnar er með þeim hætti að nemendur sækja þrjú námskeið, þemadag og örnámskeið. Fjölmörg námskeið frá Menntavísindasviði eru í boði, sem og sérstakur þemadagur en þá verja nemendur heilum degi í tiltekinni grein. Nýjungar á þemadeginum eru matur í geimnum og hvalafræðsla. 

Fulltrúar Menntavísindasviðs í Háskóla unga fólksins í ár eru fjölmargir. Má þar nefna Skúlínu Hlíf Kjartansdóttur aðjúnkt sem stendur að þemadeginum FabLab hreyfingin og stafræn tækni, Hönnu Ólafsdóttur lektor og Rannveigu Þorkelsdóttur aðjúnkt með námskeiðið lífleikni og listir og þemadag sem tileinkaður er sama viðfangsefni. Ingveldur Ævarsdóttir stundakennari og Ævar Aðalsteinsson meistaranemi í tómstunda- og félagsmálafræði bjóða upp á einstaka upplifum; þemadaginn Sörvævor — Lifðu af í náttúrunni, Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor og Sævar Helgi Bragason sameina krafta sína og kenna um mat í geimnum, og Edda Elísabet Magnúsdóttir aðjúnkt verður einnig með þemadag um hvalina í Faxaflóa. Þá geta nemendur setið námskeið í íþrótta- og heilsufræði hjá Rúnu Sif Stefánsdóttur, fræðst um furðuleg form hjá Bjarnheiði Kristinsdóttur og lært allt um raddir og rými í myndum hjá Evu Harðardóttur en þær stunda allar doktorsnám við Menntavísindasvið. Auk þess er Salvör Gissurardóttir lektor með námskeið í vefsmíði.

Efnt verður til glæsilegrar lokahátíðar á föstudaginn þar sem nemendur fá m.a. afhent viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á vefsíðu Háskóla unga fólksins.

""
""
""
""
""