Skip to main content
25. júní 2022

„Menntun er vagga frelsis og farsældar“ 

„Menntun er vagga frelsis og farsældar“  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Menntun er ekki bara máttur, hún er vagga frelsis og farsældar. Megi ykkur auðnast, kæru kandídatar, að nýta mátt menntunarinnar, sjálfa þekkinguna til góðra verka, þannig að hún stuðli að farsæld og friði hvar sem þið látið til ykkar taka á komandi árum.“

Þetta sagði Jón Atli Bendiktsson, rektor Háskóla Íslands í dag þegar skólinn brautskráði 2.594 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi en aldrei hafa jafnmargir brautskráðst frá HÍ. Nemendur voru brautskráðir frá öllum fimm fræðasviðum skólans. 

Háskólarektor lagði út af ættjarðarljóði skáldkonunnar Huldu í ávarpi sínu til kandídatanna í dag þar sem segir: 

Hver á sér meðal þjóða þjóð, 
er þekkir hvorki sverð né blóð 
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?

Jón Atli sagði að þótt við Íslendingar séum vissulega sjálfstæð þjóð þá myndi allar þjóðir heimsins saman eitt mannkyn. „Engin þjóð stendur því ein, við verðum að vinna saman sem heild.  Sú friðsæla þjóð, sem í kvæði Huldu er „svo langt frá heimsins vígaslóð“, er ekki á hjara veraldar.“

Rektor sagði að til til Kænugarðs í Úkraínu væru einungis á fjórða þúsund kílómetrar sem samsvari því að fara hringveginn hartnær þrívegis.  „Heimurinn hefur skroppið saman og vígaslóðin hefur teygt sig inn í hjarta Evrópu. Afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa þannig minnt okkur á hve lítill heimur okkar er þrátt fyrir allt. Við sem deilum þessum hnetti erum í reynd ein stór fjölskylda svo mjög sem örlög okkar eru tvinnuð saman á ótal vegu.  Við þurfum að huga að hinu alþjóðlega samhengi á öllum sviðum atvinnu- og þjóðlífs á Íslandi, um leið og við ræktum menningararfleifð okkar. Hér hefur Háskóli Íslands tekið að sér forystuhlutverk,“ sagði háskólarektor og bætti því við að Íslendingar væru einhuga um að styðja við flóttafólk sem flosnað hefði upp frá heimahögunum í Úkraínu sökum óréttlætanlegrar innrásar nágrannaríkis.  

Tvær athafnir vegna fjölda

Í dag brautskráir HÍ í tveimur athöfnum sökum alls þess fjölda sem nú heldur annaðhvort út í atvinnulífið til áhrifa þar eða í frekara nám hér heima eða erlendis.  Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hófst kl. 10 í morgun, fengu kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 653 frá Félagsvísindasviði og 311 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Á seinni athöfninni, sem hefst kl. 13.30, brautskrást kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 578 frá Heilbrigðisvísindasviði, 279 frá Hugvísindasviði og 773 frá Menntavísindasviði.

Jón Atli vék einnig að mikilvægi alþjóðstarfs í ávarpi sínu í morgun en í stefnu skólans er þungi lagður á gæði á öllum sviðum starfsins til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni í kennslu og rannsóknum. Eitt helsta markmið HÍ er að ryðja burt hindrunum, opna skólann og vinna þvert á einingar í frjóu samtali og samstarfi við samfélag, atvinnulíf og háskóla um heim allan.

„Við leggjum höfuðáherslu á að alþjóðlega viðurkennd viðmið séu lögð til grundvallar í öllu okkar starfi,“ sagði rektor. „Í stefnu Háskóla Íslands til 2026 eru áherslur um opinn og alþjóðlegan háskóla festar í sessi. Þær munu stuðla að áframhaldandi farsæld íslensks samfélags og tryggja að prófgráður ykkar haldi ætíð gildi sínu á alþjóðlegum vettvangi.“

Jón Atli vék einnig að mikilvægu hlutverki HÍ innan samstarfsnets framúrskarandi evrópskra háskóla sem starfa undir nafninu Aurora. Rektor sagði að það samstarf muni á næstunni tryggja aukin tækifæri íslenskra háskólanema til að taka hluta af námi sínu við öfluga erlenda skóla, ekki síst fyrir tilstilli upplýsingatækninnar.  

Megum aldrei líta undan andspænis hnattrænum áskorunum

Auk þess að fjalla um nýjar byggingar sem senn verða teknar í notkun, á meðal þeirra Hús íslenskunnar, nýuppgerða Sögu sem mun m.a. hýsa Menntavísindasvið skólans, og nýtt húsnæði Heilbrigðisvísinda, hrósaði rektor kandídötum fyrir seiglu á viðsjálverðum tímum. Þau öll sem fengu prófskírteini í dag hafa fundið ótvíræð áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á skólastarfið.  

„Þótt síðastliðin misseri hafi sannarlega verið krefjandi hafa þau einnig fært okkur nýja reynslu og nýja þekkingu á mörgum sviðum. Á grunni þeirrar þekkingar byggjum við m.a. þróun nýrra lausna og lyfja við veirusjúkdómum.“

Jón Atli sagði að Háskóli Íslands væri reiðubúinn að axla ábyrgð í heimi sem sé í senn undursamlegur og viðsjárverður.  „Við verðum hvert og eitt að finna leiðir til að njóta lífsins og gleðjast, en við megum aldrei líta undan andspænis hnattrænum áskorunum. Ég hvet ykkur, kæru kandídatar, til að vera hugrökk, halda áfram að setja markið hátt, að þið leyfið ykkur að næra stóra drauma og fóstra miklar hugsjónir. En svo mikilvægir sem draumarnir eru, þá eru verkin ennþá brýnni.“

Hér má sjá ræðu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, í heild sinni. 

Rektor afhendir kandídat rós.