Skip to main content
11. nóvember 2019

Menntavísindasvið, Heimili og skóli og SAMFOK í samstarf

Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Heimili og skóli – landssamtök foreldra og SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík hafa tekið höndum saman um regluleg fræðslukvöld fyrir foreldra undir yfirskriftinni Er ég að klúðra þessu? Fyrsta fræðslukvöld vetrarins verður haldið fimmtudaginn 14. nóvember, á hinum árlega Foreldradegi Heimilis og skóla. 

Samstarfið er útvíkkun á fyrra samstarfi sviðsins við foreldrasamtökin Fróðir foreldrar sem eru hluti af SAMFOK. 

„Allir klúðra einhverju“

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, telur samstarfið mikilvægt skref til að miðla rannsóknum til almennings og styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu. „Innan okkar raða eru fræðimenn á sviðum uppeldis- og kennslu, íþrótta- og heilsueflingar, tómstunda- og félagsstarfs. Þeir vinna að viðamiklum rannsóknum sem eiga erindi við foreldra. Foreldrahlutverkið er í senn gefandi og flókið og okkur líður öllum af og til eins og við séum að klúðra einhverju! Það eru margvíslegar áskoranir í samfélaginu í dag sem kalla á samtal, upplýsingar og samvinnu. Ég lít á foreldra sem bandamenn okkar um uppeldi, menntun, íþróttir og tómstundir barna og unglinga, og því er þetta samstarf við samtök foreldra mjög ánægjulegt,“ segir Kolbrún enn fremur. „Heimili og skóli og SAMFOK hafa byggt upp sterkt tengslanet foreldrafélaga á landsvísu og það er mikið gæfuskref að taka höndum saman um fræðslukvöld fyrir foreldra sem streymt verður í rauntíma og gerð aðgengileg þeim sem ekki eiga heimangengt.“

„Það eru margvíslegar áskoranir í samfélaginu í dag sem kalla á samtal, upplýsingar og samvinnu. Ég lít á foreldra sem bandamenn okkar um uppeldi, menntun, íþróttir og tómstundir barna og unglinga, og því er þetta samstarf við samtök foreldra mjög ánægjulegt,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. 

Foreldradeginum fagnað

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, og Sigríður Björk  Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK, binda vonir við að samstarfið auki enn frekar samtal milli foreldra og fræðasamfélagsins. 

„Við höfum síðustu misseri fundið fyrir gríðarmiklum áhuga erlendis frá á hinu svokallaða íslenska forvarnarmódeli sem snýr að því hvernig Íslendingum tókst að fara úr því að vera Evrópumeistarar í unglingadrykkju á tíunda áratugnum yfir í að hún nánast hyrfi. Þessi magnaði árangur náðist m.a. með breyttri aðferðafræði og samstilltri vinnu helstu hagsmunaaðila. Háskólasamfélagið, stjórnvöld og grasrótin fóru að tala saman og byggja aðgerðir á gagnreyndum aðferðum og niðurstöðum rannsókna og einnig var unnið markvisst í hverju sveitarfélagi fyrir sig,“ segir Hrefna og bætir við að þessi árangur hefði aldrei náðst nema með miklu og góðu samstarfi. „Samtalið milli rannsakenda, stjórnvalda og foreldra er lykilatriði í að skapa heilbrigt umhverfi fyrir börn að alast upp í svo þau geti notið hæfileika sinna og blómstrað í námi og starfi. Þetta er eilíft verkefni því það verða alltaf ný börn og nýir foreldrar sem þurfa fræðslu og leiðsögn.“ 

Foreldradagur Heimilis og skóla er nú haldinn í níunda sinn en skapast hefur hefð fyrir því að halda Foreldradaginn í nóvember ár hvert og bjóða þá upp á viðburði fyrir foreldra. „Stundum hefur verið þema eins og t.d. læsi, kvíði eða einelti eða einfaldlega fjölbreytt fræðsla fyrir foreldra um það sem er efst á baugi hverju sinni. Okkur þótti tilvalið að hefja samstarf um regluleg fræðslukvöld fyrir foreldra á þessum degi.“ 

Að sögn Hrefnu eru ýmis önnur verkefni á döfinni hjá Heimili og skóla „Til að slá enn fleiri flugur í einu höggi munum við boða til fulltrúaráðsfundar þennan sama dag og kynna þar m.a. nýtt tímarit um stafrænt uppeldi sem unnið var í samstarfi Heimilis og skóla og SAFT við Vodafone. Tímaritið verður á boðstólum fyrir áhugasama á fræðslukvöldinu 14. nóvember.“

Sigríður Björk segist finna fyrir talsverðu óöryggi hjá foreldrum þar sem hlutirnir gerast hratt á tímum tækninnar. Erfitt geti reynst að ná utan um alla þætti uppeldisins, kröfurnar séu miklar og flest öll samskipti fari fram á miðlum sem foreldrarnir þekkja ekki sjálfir. „Það er meira en að segja það að vera á tánum þegar kemur að samfélagsmiðlum, samskiptum milli ungmenna, hreyfingu, næringu, svefni og forvörnum. Ofan á bætist þessi hræðsla yfir því að vera ekki að gera sitt besta þegar kemur að uppeldi. Netið er uppfullt af misgóðum og oft misvísandi upplýsingum og það er því mikilvægt að við fræðum foreldra um það sem sem skiptir máli í foreldrahlutverkinu. Við hjá SAMFOK erum því mjög spennt fyrir þessu samstarfi við Háskólann þar sem fræðslan er sett fram á aðgengilegan hátt sem nýtist vonandi foreldrum vel.“  

Svefn, seigla og mikilvægi útiveru

Á fyrsta fræðslukvöldi vetrarins verða þrír fræðimenn með stutt og spennandi erindi um svefn og svefnvenjur, mikilvægi útivistar og frjáls leiks og seiglu barna og unglinga. Fræðslukvöldið fer fram á Foreldradaginn, 14. nóvember, kl. 20 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Foreldrar fá afhentan segul með hollráðum um svefn og svefnvenjur frá Menntavísindasviði. Fundarstjóri verður Björn Karlsson, formaður foreldrafélags Hagaskóla og stjórnarmeðlimur SAMFOKS.

Fræðslukvöldinu verður streymt til áhugasamra sem eiga ekki heimangengt. 

Dagskráin er sem hér segir:

Góðar svefnvenjur! „Setur þú svefninn í forgang?“ Rúna Sif Stefánsdóttir doktorsnemi fjallar um rannsóknir á svefnvenjum barna og ungmenna.
Ekki gefast upp! „Við þurfum bæði harðan skráp og mýkt til að lifa farsælu lífi.“ Ragný Þóra Guðjohnsen lektor fjallar um seiglu barna og ungmenna.
Úti er ævintýri! „Útivera bætir líf barna.“ Jakob Frímann Þorsteinsson aðjunkt fjallar um gildi útivistar og hins frjálsa leiks.

Aðgangur er ókeypis og eru öll áhugasöm velkomin.

Viðburðurinn á Facebook

Frá vinstri: Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, og Sigríður Björk  Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK. MYND/ Samsett