Menntaverðlaun Háskóla Íslands veitt í fyrsta sinn | Háskóli Íslands Skip to main content

Menntaverðlaun Háskóla Íslands veitt í fyrsta sinn

16. maí 2018
""

Háskóli Íslands hefur sett á fót nýja viðurkenningu, Menntaverðlaun Háskóla Íslands, sem veitt verða nemendum fyrir framúrskarandi frammistöðu á stúdentsprófi. Verðlaunin verða afhent í fyrsta sinn við brautskráningar í framhaldsskólum landsins nú á vormánuðum 2018.

Hver framhaldsskóli getur tilnefnt einn nemanda til verðlaunanna sem hefur staðið sig einstaklega vel á skólagöngu sinni. Viðkomandi hafi sýnt framúrskarandi árangur á stúdentsprófi, með meðaleinkunn 8,75 eða hærra, auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður. 

Menntaverðlaun Háskóla Íslands felast í veglegri bókargjöf auk þess sem nemandi fær viðurkenningarskjal frá rektor og hlýtur styrk sem nemur upphæð skráningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi hann að hefja nám þar. Nemendur sem hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands við útskrift úr framhaldsskóla geta jafnframt, líkt og aðrir nýnemar við HÍ, sótt um styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en umsóknarfrestur vegna hans er 5. júní ár hvert.

Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskóla Íslands, segir markmiðið með viðurkenningunni að verðlauna nemendur fyrir alhliða framúrskarandi árangur á skólagöngu sinni. „Með verðlaununum viljum við senda fjölbreyttum hópi framhaldsskólanemenda um land allt þau skilaboð að Háskóli Íslands taki eftir frábærum árangri þeirra bæði í námi og einnig á öðrum sviðum. Og að sjálfsögðu viljum við með þessu framtaki einnig bjóða þau velkomin í Háskóla Íslands og láta þau vita að við vonumst til að sjá þau sem nýnema við skólann.“
 

Háskólasvæðið

Netspjall