Menntamálaráðuneytið styrkir Icelandic Online fyrir börn | Háskóli Íslands Skip to main content
21. febrúar 2020

Menntamálaráðuneytið styrkir Icelandic Online fyrir börn

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum veglegan styrk til að þróa kennsluefni fyrir börn af erlendum uppruna sem læra íslensku sem annað mál. Verkefnið er unnið undir merkjum Icelandic Online og verður um 60 klukkustunda námsefni með leikjaívafi fyrir börn á leikskólaaldri og í fyrstu bekkjum grunnskóla. 

Markhópurinn eru 5-7 ára börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi og eru að byrja að lesa. Sérstök áhersla verður því á skólamál og mál námsbóka sem er helsti þröskuldur tvítyngdra barna í námi. Efnið mun einnig nýtast sem ítarefni við móðurmálsnám. Námskeiðið tekur mið af Aðalnámskrá leikskóla og grunnskóla og nýtir sér vefnámskeiðaumhverfi Icelandic Online sem hentar bæði tölvum og snjalltækjum. Áætlað er að námskeiðið Icelandic Online fyrir börn komi út í byrjun desember á þessu ári, en það verður gjaldfrjálst og öllum opið. 

Með styrknum frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu telst verkefnið fullfjármagnað, en unnið hefur verið að þróun verkefnisins frá 2018 í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með mikilvægum stuðningi Barnavinarfélagsins Sumargjafar, Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur, Þróunarsjóðs innflytjendamála og Þróunarsjóðs námsgagna.

Hugvarp - hlaðvarp Hugvísindasviðs Háskóla Íslands ræddi verkefnið við Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, en hún hefur umsjón með verkefninu. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan en einnig er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpsþáttum Hugvísindasviðs á SpotifyiTunes og öðrum hlaðvarpsveitum.

Birna Arnbjörnsdóttur, prófessor í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands
Icelandic Online Kids