Skip to main content
27. nóvember 2017

Meðal 200 bestu háskóla heims í raunvísindum

""

Háskóli Íslands er í sæti 176-200 yfir bestu háskóla heims á sviði raunvísinda á lista sem tímaritið Times Higher Education birti í dag. Alls hefur skólinn komist á sex lista tímaritsins yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum í haust og undirstrikar það bæði breidd Háskólans og alþjóðlegan styrk.

Við mat á frammistöðu háskóla á sviði raunvísinda horfir Times Higher Education til árangurs á sviði stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði, stjarneðlisfræði og efnafræði en einnig jarðvísinda, umhverfisfræði og haffræði. 

„Það er sérstaklega ánægjulegt að fá þessa staðfestingu á sterkri alþjóðlegri stöðu raunvísinda í Háskóla Íslands.  Þetta er mikilvægt þar sem menntun og rannsóknir í raunvísindum mynda grunn fyrir framþróun í íslensku atvinnulífi og stuðla að því að Ísland sé samkeppnishæft í því alþjóðlega umhverfi sem við erum hluti af. Þessi viðurkenning endurspeglar einnig árangursríkt samstarf raunvísinda innan Háskólans við fjölmarga aðila í íslensku samfélagi en það styrkir bæði nemendur okkar og rannsóknir,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Auk þess að vera á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði raunvísinda er Háskólinn meðal þeirra bestu á sviði lífvísinda, heilbrigðisvísinda, verkfræði og tækni, hugvísinda og félagsvísinda. Times Higher Education metur einnig heildarframmistöðu háskóla og er Háskóli Íslands í 201.-250. sæti á lista tímaritsins yfir bestu háskóla heims í ár. Þess má geta að skólinn hefur verið á heildarlistanum allt frá árinu 2011.

„Ég óska íslensku samfélagi, starfsfólki og nemendum Háskóla Íslands og samstarfsaðilum skólans innanlands og utan hjartanlega til hamingju með þennan frábæra árangur. Samkeppnin um stöðu á listanum er gríðarleg. Öflugt raunvísindastarf er Háskóla Íslands, atvinnulífi og samfélaginu í heild afar mikilvægt. Hlúa þarf áfram að þessum kraftmiklu greinum, íslensku samfélagi til heilla,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði raunvísinda og grundvöll matsins er að finna á heimasíðu tímaritsins
 

""