Skip to main content

Marina Warner heiðursgestur Hugvísindaþings

24. janúar 2018

Heiðursgestur Hugvísindaþings í ár verður Marina Warner, rithöfundur og prófessor í ensku og ritlist. Hún er þekktust fyrir skrif um femínisma og goðsagnir og þekktustu verk hennar eru Alone of all her sex: the myth and cult of the Virgin Mary (1976) og skáldsagan The lost father sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna árið 1988. Nýjasta ritverk hennar er bókin Fairy Tale: A Very Short Introduction sem Oxford bókaútgáfan gefur út á þessu ári.

Marina var valin félagi í British Academy árið 2005 og var veitt DBE-orða breska samveldisins 2015 fyrir framlag hennar til bókmenntastarfs. Hún hlaut norsku Holberg verðlaunin árið 2015, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi framlag til rannsókna á sviði félags- og hugvísinda. Á liðnu ári fékk hún World Fantasy Lifetime verðlaunin, en meðal verðlaunahafa í gegnum tíðina eru Ursula K. Le Guin, Stephen King, Terry Pratchett, Italo Calvino og Roald Dahl.

Þá hefur hún setið í valnefndum Booker-bókmenntaverðlaunanna og myndlistarverðlaunanna Turner Prize og stundað kennslu og rannsóknir við Oxford-, Cambridge-, Stanford- og Princeton-háskóla.

Marina Warner mun flytja opnunarfyrirlestur þingsins í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 9. mars. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Hugvísindaþing verður haldið 9. og 10. mars og frestur til að skila inn tillögum að málstofum er til 28. janúar. Hér má sjá nánari upplýsingar og nálgast eyðublað fyrir tillögur að málstofum.

Marina Warner

Netspjall