Marina Warner heiðursgestur Hugvísindaþings | Háskóli Íslands Skip to main content
24. janúar 2018

Marina Warner heiðursgestur Hugvísindaþings

Heiðursgestur Hugvísindaþings í ár verður Marina Warner, rithöfundur og prófessor í ensku og ritlist. Hún er þekktust fyrir skrif um femínisma og goðsagnir og þekktustu verk hennar eru Alone of all her sex: the myth and cult of the Virgin Mary (1976) og skáldsagan The lost father sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna árið 1988. Nýjasta ritverk hennar er bókin Fairy Tale: A Very Short Introduction sem Oxford bókaútgáfan gefur út á þessu ári.

Marina var valin félagi í British Academy árið 2005 og var veitt DBE-orða breska samveldisins 2015 fyrir framlag hennar til bókmenntastarfs. Hún hlaut norsku Holberg verðlaunin árið 2015, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi framlag til rannsókna á sviði félags- og hugvísinda. Á liðnu ári fékk hún World Fantasy Lifetime verðlaunin, en meðal verðlaunahafa í gegnum tíðina eru Ursula K. Le Guin, Stephen King, Terry Pratchett, Italo Calvino og Roald Dahl.

Þá hefur hún setið í valnefndum Booker-bókmenntaverðlaunanna og myndlistarverðlaunanna Turner Prize og stundað kennslu og rannsóknir við Oxford-, Cambridge-, Stanford- og Princeton-háskóla.

Marina Warner mun flytja opnunarfyrirlestur þingsins í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 9. mars kl. 12:00. Sjá nánari upplýsingar á vef þingsins.

Marina Warner