Skip to main content
12. nóvember 2018

María Dóra verðlaunuð fyrir störf í þágu náms- og starfsráðgjafar

""

María Dóra Björnsdóttir, doktor í náms- og starfsráðgjöf og deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu Félags náms- og starfsráðgjafa (FNS) fyrir vel unnin störf í þágu fagsins á Degi náms- og starfsráðgjafar sem fagnað var föstudaginn 9. nóvember. 

María Dóra lauk BA-prófi í sálfræði árið 1997, diplómanámi í námsráðgjöf árið 1999 og meistaraprófi í náms- og starfsráðgjöf árið 2007. Hún varð fyrst til að ljúka doktorsprófi í greininni frá Háskóla Íslands fyrr á þessu ári en yfirskrift doktorsrannsóknar hennar er „Mat á áhrifum náms- og starfsráðgjafar fyrir framhaldsskólanema (e. Evaluation of career interventions. Short- and long-term outcomes for students finishing upper secondary school in Iceland)“. Megintilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif tveggja nálgana í náms- og starfsfræðslu fyrir framhaldsskólanemendur.

„Niðurstöðurnar eru ákaflega mikilvægar fyrir stétt náms- og starfsráðgjafa þar sem þær undirstrika að kerfisbundin náms- og starfsfræðsla í gegnum allt skólakerfið myndi styðja nemendur við að verða sjálfstæðari í náms- og starfsvali við lok framhaldsskóla og auðvelda þeim að stjórna eigin náms- og starfsferli út í lífið. Það ætti því að vera hagsmunamál íslenskra stjórnvalda að koma á fót stefnu í náms- og starfsfræðslu á öllum skólastigum,“ sagði Helga Tryggvadóttir, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa, þegar hún afhenti Maríu Dóru viðurkenninguna. 

María Dóra hefur starfað sem náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands frá árinu 1999, þar af sem deildarstjóri frá árinu 2011. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. 

Háskóli Íslands óskar Maríu Dóru innilega til hamingju með viðurkenninguna.

María Dóra Björnsdóttir